
Sautján ára skólastúlka, Lainie Williams, sem var drepin þegar hún reyndi að verjast innbrotsþjófi vopnuðum hníf inni á heimili fjölskyldu sinnar, sagði litla bróður sínum að fela sig undir rúminu í örvæntingafullri tilraun til að bjarga honum, að því er haldið fram.
Stúlkan, sem fjölskylda hennar lýsir sem „hugrakkri og fallegri“, fannst látin í svefnherbergi sínu eftir að óprúttinn aðili braust inn á heimili þeirra í Cefn Fforest, nærri Blackwood í Suður-Wales, um klukkan 7.15 að morgni. Lögregla var kölluð á vettvang og þegar hún kom á staðinn fannst Lainie með fjölmörg stungusár.
Að sögn afa hennar, sem er harmi sleginn, sagði Lainie átta ára bróður sínum, sem varð vitni að árásinni, að fela sig undir rúminu til að reyna að bjarga honum. Lainie reyndi að berjast á móti árásarmanninum, sem stakk einnig móður hennar, Rhian Stephens, 38 ára, sem er enn á sjúkrahúsi með alvarlega áverka.
Átján ára gamall maður frá Newbridge hefur verið handtekinn grunaður um morðið og tilraun til manndráps í tengslum við atvikið í Cefn Fforest, að sögn lögreglunnar í Gwent.

Komment