
Það er víðáttumikil hæð vestur af Írlandi sem stýrir veðrinu næstu daga á Íslandi ef marka má spá Veðurstofu Íslands sem segir einnig að suðvestanátt dæli afar röku og mjög hlýju lofti til Íslands.

Í dag verður suðvestan 8-13 m/s, en 13-18 í vindstrengjum við fjöll á norðvestanverðu landinu og þá verður akýjað vestanlands og dálítil væta norðvestantil en þurrt og bjart fyrir austan.
Hiti verður á bilinu 8 til 15 stig, en 18 til 28 stig á Austurlandi.
Tekið er fram að varasamt sé fyrir ökutæki er taka á sig mikinn vind að vera á ferðinni á Breiðafirði, Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra; þar eru gular viðvaranir í gildi þangað til á morgun.
Það mun síðan draga smátt og smátt úr vindi á morgun, en það verður vestlæg átt 5-10 m/s undir kvöld.
Rigning eða súld með köflum er á matseðlinum á vestanverðum Klakanum, en áfram verður þurrt og bjart austantil.
Hiti verður 11 til 24 stig, hlýjast fyrir austan, en í næstu viku er útlit fyrir rólegt og milt veður, hæga breytilega átt; verður skýjað að mestu og dálítil væta og hiti verður yfirleitt á bilinu 12 til 18 stig.
Komment