
Tryggvi Ingimarsson sjómaður, fæddur 6. janúar 1937, lést 17. nóvember síðastliðinn, 88 ára að aldri. Útför hans fór fram í gær frá Akureyrarkirkju. Í minningarorðum áhafnarinnar á Húna II er horfið inn í líf, störf og áhrif Tryggva, sem kallaður er „höfðingi úr einvalaliði Húna“.
Í kveðju áhafnarinnar, sem birtist á Facebook í gær segir að dagurinn sé þungbær: „Í dag stöndum við Húnamenn hnípnir og í huga okkar er söknuður og sorg. Höfðingi úr einvalaliði Húna er fallinn frá.“
Tryggvi var hluti af áhöfn Húna um árabil og hafði, að sögn félaga sinna, djúpstæð áhrif á allt starfið. „Sannarlega hefur hann markað spor í þann ágæta félagsskap,“ skrifar áhöfnin, og bætir við að sú manngerð sem hann hafði að geyma hafi verið „uppfull af kostum sem hverjum félagsskap er heiður að hafa innan sinna raða,“ þar á meðal „glaðværðina, gáskan hlýleikann, vináttuna og síðast en ekki síst þá einstöku snyrtimennsku“ sem hann smitaði út í hópinn.
Tryggvi starfaði alla tíð á sjó, á bæði litlum og stórum skipum. Áhöfnin minnist þess hve gaman hafi verið að hlýða á sögur hans. Hann hafi aldrei talað illa um nokkurn mann: „Allir menn sem hann var með til sjós voru góðir, og það einmitt var hans lífsmottó, allir menn eru góðir.“
Sérstaklega var áhöfninni minnisstætt hvernig Tryggvi naut sín í skólasiglingum með börnum. „Það var dásamlegt að horfa á hann leiðbeina krökkunum og alltaf með þessari einstöku hlýju nærveru og börn minnast Tryggva sem góða gamla mannsins á Húna.“
Tryggvi hafi sinnt öllum verkum um borð af mikilli alúð: „Það var hverjum manni ljóst er þekkti að Tryggva þótti einstaklega vænt um bátinn.“ Sorgin hafi því verið þung í gær: „Skarðið sem Tryggvi skilur eftir sig um borð í bátnum okkar verður ekki fyllt, og þótt einhverstaðar standi maður kemur í manns stað, þá var bara til einn Tryggvi Ingimarsson.“
Áhöfnin lýsir einnig baráttu hans síðasta árið. „Vissulega hjó sjúkdómurinn í hann … en ekki síður var Tryggva það erfitt að geta ekki staðið vaktina í Húna sem hann vildi,“ skrifa þeir og segja að hann hafi reynt „eins lengi og stætt var að vera á vaktinni“.
Einn áhafnarmeðlimur vitnar í orð skipstjóra: „Sá fallegasti skal vera frammá sagði Bjarni Bjarnason skipstjóri oft, og þá var átt við Tryggva Ingimarsson.“
Í lok kveðjunnar eru birt þau orð sem áhöfnin segir með „titrandi röddu“:
„Elsku Tryggvi Ingimarsson takk og aftur takk.“
Tryggvi var lagður til hinstu hvílu í gær á eyjunni sem hann unni mest, Hrísey.
„Við félagar hans í áhöfninni á Húna trúum því að nú sé Tryggvi að koma HEIM,“ segir í kveðjunni.
Að lokum sendir áhöfnin samúðarkveðjur til barna hans og annarra ástvina: „Hvíl í frið kæri vinur. Blessuð sé minning Tryggva Ingimarssonar.“

Komment