
Akureyringur á þrítugsaldri hefur verið dæmdur í fangelsi af Héraðsdómi Norðurlands eystra.
Hann var ákærður fyrir brot á ávana- og fíkniefnalögum með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 30. janúar 2024, verið með í vörslum sínum þegar lögreglan hafði afskipti af honum á heimili hans, eftirtalin fíkniefni og fíknilyf, en lyfin hafði hann ekki fengið ávísað til sín af lækni: Amfetamín 40,24 grömm, Maríhúana 1,58 grömm, tóbaksblandað kannabisefni 0,71 grömm, Psilocybin 19,21 grömm, Concerta 3 stykki, Pregabalin Accord 1 stykki, Pregabalin Medical Walley 38 stykki og Lyrica 2 stykki.
Þá var hann einnig ákærður fyrir brot á vopnalögum en á heimili hans fann lögreglan kylfu sem hafði verið teipuð með einhverskonar límbandi og tveir hnífar höfðu verið teipaðir við kylfuna, boga, byssusting, tvær örvar, tvo hnífa og hnúajárn.
Maðurinn játaði brot sitt en hann hafði áður verið dæmdur fyrir vörslur og sölu fíkniefna og peningaþvætti.
Akureyringurinn skal sæta fangelsi í níu mánuði en fresta skal fullnustu sex mánaða refsingarinnar og skal sá hluti falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms haldi hann skilorði.
Komment