Alma Möller heilbrigðisráðherra hefur falið Sjúkratryggingum Íslands að undirbúa kaup á sjúkrabíl til sérhæfðra sjúkraflutninga.
Slíkur bíll myndi, að sögn yfirvalda, auðvelda og auka öryggi við flutning mjög veikra sjúklinga milli gjörgæsludeilda Landspítala eða fyrir sjúkraflug, við sérhæfðan sjúkraflutning nýbura og fyrirbura og aðra sjúkraflutninga milli stofnana þar sem öryggi er best tryggt með sérhæfðum búnaði.
„Þetta er mikilvægt framfaraskref sem mun auka öryggi bráðveikra sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks sem sinnir þeim meðan á sjúkraflutningi stendur. Ég vonast til þess að unnt verði að taka bílinn í notkun strax á næsta ári“ sagði Alma um málið.
Áður en ráðist verður í kaupin mun SÍ vinna þarfagreiningu sem dregur fram hvaða kröfur sjúkrabíll fyrir sérhæfða sjúkraflutninga þarf að uppfylla svo hann þjóni sem best þeim flutningum sem honum er ætlað að sinna.


Komment