
Andrés Páll Ragnarsson hefur verið dæmdur í Héraðsdómi Norðurlands vestra en dómur þess efnis var nýlega birtur.
Í ákæru segir að málið sé höfðað fyrir eftirfarandi brot: „fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn barni, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 1. janúar 2023 áreitt Y, kt. […], kynferðislega með því að kyssa hana á munninn á heimili hennar að B á A, og í framhaldi af því boðið henni heim til sín í annarri íbúð í sama húsi, farið með hana inn í svefnherbergi sitt, afklætt hana og án hennar samþykkis haft við hana samræði en ákærði nýtti sér yfirburðarstöðu sína vegna aldurs- og þroskamunar og beitti hana þannig ólögmætri nauðung en Y reyndi ítrekað að fá ákærða til þess að láta af háttseminni.“
Andrés Páll neitaði sök en játaði að hafa kysst stelpuna, sem var þá 14 ára gömul, og sagði það hafa verið með hennar samþykki. Hann hafi ekki vitað hversu ung hún væri og talið að hún væri 18 til 20 ára gömul. Hann hafi farið heim síðar um nóttina og verið einn. Móðir brotaþola og unnusti hennar sögðu fyrir rétti að brotaþoli hafi bankað á hurð salernisins sem þau voru inni á og sagt að hún væri á leið niður í íbúð Andrésar.
Dómurinn mat það hins vegar svo að framburður brotaþola væri trúverðugri en Andrésar og gat stelpan meðal annars teiknað upp herbergjaskipan á heimili hans. Þá hafi hún verið stöðug í framburði sínum.
Andrés var dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi og þarf hann að greiða fórnarlambi sínu tvær milljónir króna auk vaxta.
Komment