
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur greint frá því á samfélagsmiðlum að hún sé að flytja erlendis til að fara í skóla.
„Ég hef tekið ákvörðun um að hefja nám í Columbia háskóla í New York síðsumars eftir að ég fékk boð í vikunni um skólavist. Því fylgja flutningar til Bandaríkjanna og leyfi frá þingstörfum í 9 mánuði frá og með haustinu. Þar mun ég leggja stund á MPA nám (Master in Public Administration in Global Leadership),“ skrifar Áslaug um ákvörðun sína.
„Þetta hefur verið draumur lengi. Ég er reyndar manneskja margra drauma. Síðustu 10 ár hef ég gefið allt sem ég á í störfum mínum fyrir Ísland og Sjálfstæðisflokkinn.
Ástríða mín um að hafa jákvæð áhrif á samfélagið okkar er hvergi á undanhaldi. Ég trúi því að með þessu skrefi sé ég ekki að bara láta persónulegan draum rætast heldur líka að stækka sjóndeildarhringinn, bæta við mig þekkingu og reynslu sem mun án efa reynast mér mikilvægt veganesti inn í framtíðina.
Inn á þing fer á meðan minn öflugi varaþingmaður, Sigurður Örn Hilmarsson,“ heldur hún áfram.
Stutt er síðan Áslaug tapaði fyrir Guðrúnu Hafsteinsdóttur í formannskjöri Sjálfstæðisflokknum eftir harða baráttu. Áslaug segir að sér sé enn efst í huga þakklæti fyrir allan þann stuðning sem hún hefur fengið síðustu ár í stjórnmálum og sérstaklega í vetur í aðdraganda landsfundar Sjálfstæðisflokksins.
Komment