
Utanríkisráðherra Belgíu, Maxime Prévot, segir að stjórnvöld þar í landi ætli að viðurkenna sjálfstætt Palestínuríki, og að það verði gert á allsherjarfundi Sameinuðu þjóðanna síðar í mánuðinum.
Með þessari yfirlýsingu bætast Belgar þannig í sístækkandi hóp þeirra ríkja er ákveðið hafa að viðurkenna Palestínu í kjölfar helfararinnar á Gasa; má þar nefna Ástralíu, Frakkland, Bretland og Kanada.
Utanríkisráðherrann - sem tók við starfi sínu í febrúar á þessu ári - skýrði frá þessu á samfélagsmiðlinum X.
Sagði Prévot til að mynda að ákvörðunin beindist ekki gegn Ísrael sem þjóðar í heild sinni; hér væri miklu fremur um að ræða tilraun í þeim tilgangi að hvetja stjórnvöld í Ísrael til þess að virða mannréttindi alþjóðalög, og grípa til aðgerða til að bæta stöðu íbúa Gasa.
Hins vegar segir utanríkisráðherra Belga að viðurkenningin sé háð ákveðnum skilyrðum og þannig yrði til dæmis aðeins gengið frá henni formlega þegar Hamas-liðar hefðu sleppt öllum ísraelskum gíslum úr haldi á Gasa; einnig að Hamas-samtökin ættu ekki neina aðkomu að stjórn Palestínu.
Komment