
Tónskáldið Bergrún Snæbjörnsdóttir gefur út sína fyrstu LP-plötu, Skinweeper, en platan kemur út á vegum Smekkleysu. Útgáfan verður aðgengileg stafrænt frá og með föstudeginum 23. janúar, en vínýlútgáfa er væntanleg á næstu vikum.
Skinweeper er breiðskífa sem sameinar tónsmíðar og leiddan spuna í eina heild og á rætur sínar að rekja til framsækinna strauma í tilraunatónlist. Á plötunni eru þrjú verk sem samin voru yfir sjö ára tímabil og byggja á abstrakt hugleiðingum um umbreytingu orku úr einu formi í annað. Saman mynda verkin heildstæða frásögn þar sem hljóðheimur og form renna saman. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu um útgáfuna.
Flytjendur á plötunni eru alþjóðlega þekktir tónlistarmenn, þar á meðal William Winant, Kevin Corcoran og Matthias Engler á slagverk, Theresa Wong og Marrissa Deitz á selló, Kyle Bruckmann á enskt horn, John McCowen á klarínettur og Gunnhildur Einarsdóttir á hörpu. Samstarfið við flytjendur var náið og markvisst, með það að leiðarljósi að draga fram persónulegt samband hvers þeirra við hljóðfæri sitt inn í tónsmíðarnar.
Tónlist Bergrúnar hefur vakið sívaxandi athygli á undanförnum árum og hafa verk hennar meðal annars verið flutt af Fílharmóníusveitinni í Osló, Ensemble Musikfabrik í Þýskalandi og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún nam tónsmíðar við Listaháskóla Íslands og síðar við Mills College í Kaliforníu, þar sem hún naut leiðsagnar brautryðjenda í framsækinni tilraunatónlist, á borð við Pauline Oliveros, Fred Frith og Zeenu Parkins.
Bergrún starfar á mörkum ólíkra listgreina og er tónlist hennar oft samofin myndlist, innsetningum og heimspekilegum hugmyndum. Í verkum hennar gegnir hinn sjónræni þáttur gjarnan lykilhlutverki og hlutverk flytjenda er opið og spunakennt, meðal annars með notkun óhefðbundinnar nótnaskriftar.
Á meðal nýlegra verka hennar má nefna Agape, sem var frumflutt á myndlistarhátíðinni Sequences árið 2021, Ecognosis, pantað af International Contemporary Ensemble sama ár, og Roföldur með John McCowen, sem var flutt á vegum INA GRM í Radio France árið 2025. Meðal verkefna fram undan eru meðal annars verk í tónleikalengd fyrir Apparat Ensemble á Myrkum músíkdögum, verk fyrir Yarn/Wire og nýtt tónleikalangt verk fyrir viibra flautuseptett í samstarfi við danshöfundinn Margréti Bjarnadóttur fyrir Listahátíð í Reykjavík.
Platan Skinweeper kemur út stafrænt föstudaginn 23. janúar, en nánari upplýsingar um útgáfu vínýls verða kynntar síðar.

Komment