
Miðflokkskonan Sigríður Á. Andersen tjáir sig um hið fræga viðtal þar sem Snorri Másson lét vaða á súðum og vakti þjóðarathygli.
Sigríður ver málstað Snorra og spyr hvort það sé ekki í lagi að viðra skoðanir sínar, sama hverjar þær eru:
„Snorri Másson þingmaður átti orðastað við verkefnastjóra Samtakanna 78, Þorbjörgu Þorvaldsdóttur, í Kastljósi í vikunni“ segir Sigríður og bætir því við að tilefnið var „færsla hennar um málflutning Snorra um hinsegin málefni og hið svokallaða bakslag sem sumir telja að orðið hafi á Íslandi í þessum málum.“
Sigríður telur að bæði Snorri og Þorbjörg hafi komið sjónarmiðum sínum með sóma á framfæri, „að því marki sem þáttur sem þessi leyfir. Það sem eftir situr er að Snorri og Þorbjörg eru ósammála um tiltekna nálgun í umræðu um þessi mál. Snorri lýsti þeirri skoðun sinni að umræða um fjölda kynja væri hluti af tiltekinni hugmyndafræði, án þess að gefast tækifæri til að skýra það nánar. Þorbjörg lýsti þeirri skoðun sinni að engin hugmyndafræði væri á ferð í umræðunni heldur bara mannréttindi, án þess að gefast tækifæri til þess að skýra það nánar.“
Bætir við:
„Kannski eru þau ósammála um hversu mörg kynin „eru“. Kannski eru þau það ekki. Það kom ekki fram. Bæði voru sammála um að allir hefðu rétt til að lifa sínu lífi eins og þeir kjósa. Bæði voru sammála um að hatur og ofbeldi í garð náungans væri óforsvaranlegt. Þótt Snorri hafi einn lýst því skilmerkilega yfir að hann hataði engan þá leyfi ég mér að ganga út frá því að Þorbjörg hati ekki heldur nokkurn mann.“

Hún spyr hvernig það megi vera að hávær hópur nýti sér nú samfélagsmiðlana og fréttatíma RÚV til þess að vega að Snorra fyrir ákveðin ummæli og hatursfulla orðræðu.
„Og „gamaldags“ hefur líka verið slengt fram sem hnjóðsyrði. Talsmenn í málaflokknum og áhugamenn hafa enga þolinmæði fyrir „umræðunni“. Það er ekkert nýtt. Meira að segja gagnrýni á opinberar fjárveitingar í málaflokkinn hefur verið lýst sem „hatur“.“
Sigríður færir í tal að „nokkrum undarlegum spilum var spilað út í gær. Biskup Þjóðkirkjunnar setur Kastljósþáttinn í samhengi við sjálfsvíg og reynir þannig að varpa ábyrgð á þáttastjórnanda og Snorra í þeim efnum. Kristilegur kærleikur í nýrri mynd úr þeim ranni. Landlæknir er dreginn á flot í fréttatíma RÚV til þess að renna stoðum undir aðförina að Snorra. Úr var undarleg samsuða yfirlýsinga sem engu skilaði til málefnalegrar umræðu en vöktu upp því mun fleiri spurningar hjá þeim sem gætu hafa fengið áhuga á þessum málaflokki eftir viðtalið við landlækni.“
Sigríður veltir því fyrir sér hvað landlæknir telji kynin vera mörg.
Spyr:
„Hvað segja sannreynd gögn um hitt og þetta í þessum efnum? Er þekking sérfræðinga óbrigðul? Er ekki krafa vísindanna að spyrja spurninga, ræða málin? Ætlar landlæknir að svara þessum spurningum? Og svo voru það stjórnmálamennirnir sem hafa átt betri daga og ættu að mínu mati að hugsa sinn gang. Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra vísar til þingmannsins sem „geltandi kjána“. Einar Þorsteinsson borgarfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram ályktun gegn Snorra Mássyni þingmanni, í borgarstjórn! Þegar framangreint er skoðað af yfirvegun þá kemst maður ekki hjá því að velta því fyrir sér hverjir þeir eru raunverulega sem hafa horn í síðu tiltekinna hópa.“
Og hún nefnir einnig að „um þennan málaflokk almennt hef ég hins vegar sagt og tel ekki eftir mér að endurtaka að Ísland er best í heimi hvernig sem á þessi mál er litið. Ísland er ítrekað meðal fremstu þjóða hvað varðar réttindi transfólks og samkynhneigðra.

Fjölmörg „skorkort“ sýna fram á það. Íslendingar eru í 1. sæti á Tgue-réttindakorti transfólks í Evrópu og í 3. sæti á Regnbogakorti ILGA Europe, réttindasamtaka hinsegin fólks í Evrópu og Mið-Asíu.
Þá voru lög um kynrænt sjálfræði samþykkt árið 2019.“
Sigríður efast um að mörg lönd búi yfir slíkri löggjöf og finnst henni allt tal um bakslag vera í besta falli ósanngjarnt.
„Það hefur líka komið fram í könnun Fjölmiðlanefndar að andúð í garð samkynhneigðra (1,9%) eða transfólks (5,6%) er lítil hér á landi. Að minnsta kosti í samanburði við andúð fólks á Alþingismönnum (9,8%), íhaldsmönnum (15,8%), stuðningsmönnum Miðflokksins (25%), loftslagsafneitunarsinnum (52,3%) eða andstæðingum bólusetninga sem er sá hópur sem mestri andúð sætir (58%).“
Sigríður færir í tal að lokum að „fjölmiðlanefnd neitaði að upplýsa um hvaða hópar það eru (t.d. kjósendur hvaða flokka) sem helst eru fullir af svona mikilli andúð. Hverjir skyldu það nú vera? Og hví þessi óskaplega andúð í garð sjónarmiða, skoðana?“
Komment