
Samtökin No Borders Iceland hafa boðað til mótmæla á Austurvelli þriðjudaginn 9. september klukkan 13:30, þegar Alþingi kemur aftur saman eftir sumarfrí. Tilefnið eru áform ríkisstjórnarinnar og dómsmálaráðherra Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur um að koma á fót fangabúðum fyrir fólk á flótta, þar á meðal börn, að sögn samtakanna.
Í yfirlýsingu samtakanna segir að málsmeðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi hafi „um langa tíð einkennst af áralöngum töfum og niðurlægjandi meðferð sem brýtur gegn mannlegri reisn fólks“. Bent er á að einstaklingar sem hafi lifað af stríð, þjóðarmorð eða mansal séu látnir bíða árum saman eftir niðurstöðu, í andstöðu við bæði íslensk og alþjóðleg lög.
Áform dómsmálaráðherra um að koma á fót „fangabúðum“ hafa verið harðlega gagnrýnd af mannréttindasamtökum, þar á meðal UNICEF á Íslandi, Barnaheillum, Þroskahjálp og ÖBÍ. Samtökin vara sérstaklega við því að börn og fatlað fólk verði vistað þar, sem þau telja brjóta í bága við alþjóðlega sáttmála.
„Hvenær er nóg komið? Nóg ofbeldi? Nægur rasismi?“ spyr No Borders Iceland í yfirlýsingu sinni og segir skilaboðin frá stjórnvöldum skýr: „Fólk á flótta er ekki velkomið.“
Mótmælendur setja fram þrjár skýrar kröfur:
- Tafarlausa afgreiðslu mála sem hafa tafist lengi.
- Efnismeðferð og réttláta málsmeðferð fyrir alla umsækjendur, án mismununar.
- Að hvorki börn, fatlað fólk né annað fólk á flótta verði vistað í fangabúðum.
Hér má lesa yfirlýsinguna í heild sinni:
Komum saman á Austurvelli, þriðjudaginn 9. september kl. 13:30 þegar þingsetning hefst og mótmælum ómannúðlegri stefnu stjórnvalda í málefnum fólks á flótta!
Um langa tíð hefur málsmeðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi einkennst af áralöngum töfum og niðurlægjandi meðferð sem brýtur gegn
mannlegri reisn fólks. Fólk sem hefur lifað af hrylling á borð við þjóðarmorð, pólitískar
ofsóknir, stríð eða mansal ásamt hættulegum flóttaleiðum er látið bíða árum saman eftir niðurstöðu — í andstöðu við bæði íslensk og alþjóðleg lög.
Nú hefur Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra, kynnt áform sín um að koma á fót fangabúðum ætluðum fullorðnu fólki og börnum á flótta. Áform þessi hafa verið harðlega gagnrýnd af UNICEF á Íslandi, Barnaheillum, Þroskahjálp og ÖBÍ, sem vara við alvarlegri afturför í mannréttindum — einkum þegar börn og fatlað fólk verður vistað þar í andstöðu við alþjóðlega sáttmála.
Hvenær er nóg komið? Nóg ofbeldi? Nægur rasismi? Skilaboðin eru skýr. Fólk á flótta er ekki velkomið og íslensk stjórnvöld halda áfram að sýna
það í verki.
Kröfur mótmælenda:
- Tafarlaus afgreiðsla mála sem hafa tafist alltof lengi.
- Efnismeðferð og réttlát málsmeðferð fyrir alla — þá sérstaklega í viðtölum og mati á gögnum, án mismununar eða neikvæðra forsendna.
- Hvorki börn, fatlað fólk né nokkuð annað fólk á flótta verði vistað í fangabúðum.
Komment