
Heiða Björg Hilmisdóttir kannast nú við að hafa sent einkaskilaboð um að Pétur Marteinsson sé „karl með enga reynslu en frægur“. Hún kveðst hafa fundið skilaboðin, sem hún kannaðist ekki við fyrr í dag en útilokaði ekki að hafa sent, innan „þúsunda skilaboða“ sem hafa „farið frá mér til félaga í flokknum, auk vina og kunningja“.
Heiða útskýrir hvar hundurinn lá grafinn í Facebook-færslu í kvöld.
„Þegar ég var fyrst spurð um málið kannaðist ég ekki við að hafa sent umrædd skilaboð og kannaðist ekki við nema brot af textanum,“ segir Heiða. „Og sá ekki til hverrar hann var. En hef nú fundið skilaboðin sem eru hluti af lengra samtali milli mín og þeirrar sem fékk póstinn frá mér. Sú hefur ávallt deilt skoðunum mínum á jafnréttismálum og taldi ég um einkasamtal að ræða okkar á milli.“
Heiða biður Pétur afsökunar.
„En þetta var kapp án forsjár, því ég vil ekki tala niður aðra frambjóðendur í minni baráttu. Ég bið Pétur Marteinsson afsökunar og hef einsett mér að gera betur.“
Prófkjör Samfylkingarinnar fer fram á morgun og hefur komið fram að á þriðja þúsund nýrra meðlima skráðu sig í flokkinn til þess að taka þátt.
Komment