
Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmaður, hafnar því að hafa gert lítið úr Guðmundi Inga Kristinssyni, þingmanni Flokks fólksins og fyrrum ráðherra, og veikindum hans á samfélagsmiðlum í gær.
„Fyrrum menntamálaráðherra fór í hjartalokuaðgerð sem varð til þess að hann þurfti ekki að nota hækjur lengur eftir að hafa þurft að skakklappast með þær árum saman. Þetta mun vera mesta kraftaverk sögunnar síðan Jesús reisti Lazarus upp frá dauðum. Ég vildi gjarnan hitta þennan lækni og athuga hvort að hægt væri að fá náttúruna aftur með svona aðgerð,“ skrifaði þingmaðurinn fyrrverandi meðal annars.
Mannlíf og aðrir fjölmiðlar fjölluðu um málið og mátti sjá í athugasemdakerfum fjölmiðla fólk senda Brynjari kaldar kveðjur.
Í athugasemd sem Brynjar skrifaði við færslu sína í dag neitar hann alfarið að hafa gert grín að Guðmundi.
„Ég er ekki að vega að Guðmundi eða tala niður til hans. Hann hefur sagt mér frá þessum slysum og veikindum í kjölfar þeirra. Hann notaði sjálfur í því samtali að hann hafi þurft að skakklappast með hækjur síðan. Spaugilega hliðin er sú að hjartalokuaðgerð hafi leitt til þess að hann losnaði við hækjurnar. Það þarf mikinn vilja og óþol til að líta á skrif mín sem ég sé að tala niður til hans,“ skrifaði hann.
Þá svaraði hann einnig athugasemd þar sem pistill hans var kallaður ósmekklegur á þann máta að viðkomandi væri vísbending um að skopskyn væri á undanhaldi. „Mikilvægt þó að til sé fólk sem tekur að sér að móðgast fyrir hönd annarra.“

Komment