
Eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum og fólk á höfuðborgarsvæðinu fékk að upplifa þá snjóaði gífurlega mikið fyrr í vikunni og var Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur með puttann á púlsinum í þeim efnum en hann gerir upp veður vikunnar í pistli sem hann birti á samfélagsmiðlum.
„Á þriðjudag hvolfdust yfir okkur á höfuðborgarsvæðinu þvílík ókjör af hreinræktuðum jólasnjó, að annað eins hefur aldrei sést á þessum árstíma,“ skrifar Einar um veðrið.
„Ekki minna en tvöföldun á snjódýptarmeti? Enginn kann þá list betur en Íslendingar að bæði elska og hata snjóinn í sömu andránni! Tveimur sólarhringum síðar var komið 9 stiga frost í borginni, nokkuð sem gerist aðeins á svona 10-20 ára fresti í lok október,“ heldur hann áfram
„Og í dag, tveimur dögum síðar er svo kominn 10 stiga hiti (eiginlega 9,7°C). Ekki met, en það þó ekki langt undan (11,7° í nóvembember). Stundum er sagt að umhverfið og þar með veðrið móti manninn. Kannski eins og íslenska þjóðin, sem tekur reiðiköst af litlu tilefni, en fellir stuttu síðar gleðitár yfir dásamlegri tilveru sinni,“ segir veðurfræðingurinn að lokum.

Komment