
Sjötíu mál voru skráð í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu 05:00 til 16:30 í dag og gistu tveir í fangageymslum hennar.
Lögreglan sem starfar á Hverfisgötu hafði afskipti af tveimur vegna húsbrots en þeir voru óvelkomnir inni á stigagangi fjölbýlishúss. Þeir voru lausir eftir yfirheyrslur.
Alvarlegt slys varð þegar ekið var á gangangi vegfaranda en einn var fluttur á bráðamóttökuna í Fossvogi, illa slasaður. Málið er í rannsókn.
Þá var einn handtekinn vegna rannsóknar á heimilisofbeldi. Inn í málið tvinnist meint varsla fíkniefna beggja aðila málsins, auk þess sem gerandi er grunaður um sölu fíkniefna.
Einnig voru höfð afskipti af manni á heimili vegna vörslu fíkniefna en þar sem barn var á vettvangi var málið tilkynnt til barnaverndarnefndar.
Lögreglan sem annast verkefni í Kópavogi og Breiðholti höfðu afskipti af konu sem var í annarlegu ástandi við biðstöð strætó. Aukreitis voru sjúkraflutningsmenn aðstoðaðir í útkalli vegna veikinda.
Tilkynning barst um eld í atvinnuhúsnæði við Smiðshöfða og eru lögregla og slökkvilið á vettvangi. Engar nánari upplýsingar fylgdu dagbókinni en Stórhöfða er lokað frá Höfðabakka að Breiðhöfða á meðan viðbragðsaðilar eru á vettvangi.

Komment