
Dómsmálaráðherra hefur ákveðið að leggja til við forseta Íslands að Ingibjörg Þorsteinsdóttir verði skipuð dómari við Landsrétt frá 12. janúar 2026. Dómsmálaráðherra hefur jafnframt ákveðið að setja Eirík Elís Þorláksson sem dómara við Landsrétt frá 5. janúar 2026 til 28. febrúar 2029.
Greint er frá þessu í tilkynningu frá stjórnvöldum.
Dómnefndina skipuðu: Ása Ólafsdóttir formaður, Helga Melkorka Óttarsdóttir, Jóhannes Sigurðsson, Reimar Pétursson og Þorgeir Örlygsson.
Hver er Ingibjörg Þorsteinsdóttir?
Ingibjörg lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1992 og meistaraprófi í mannauðsstjórnun frá Strathclyde-háskóla í Glasgow árið 2001. Að loknu embættisprófi starfaði hún um hríð hjá sýslumanni en hóf árið 1992 störf í fjármálaráðuneytinu og starfaði þar til ársins 1999, þar af tvö ár sem staðgengill skrifstofustjóra. Árin 1995 til 1997 var hún fulltrúi fjármálaráðuneytisins í sendinefnd Íslands hjá Evrópusambandinu. Ingibjörg var deildarforseti lagadeildar Háskólans á Bifröst 2001 til 2005 og svo aftur í átta mánuði árið 2011. Jafnframt var hún lektor við skólann frá árinu 2002 og dósent frá 2008 og fram í ársbyrjun 2012. Í mars 2012 var hún sett sem héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur og gegndi því embætti þar til hún var skipuð héraðsdómari í byrjun árs 2013. Þá var hún skipuð dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur í maí 2021 og hefur gegnt þeirri stöðu síðan. Hún hefur sjö sinnum tekið sæti sem varadómari í Hæstarétti Íslands. Þá hefur Ingibjörg setið í opinberum stjórnum og nefndum, þar á meðal sem formaður kærunefndar greiðsluaðlögunarmála, í stjórn Fjármálaeftirlitsins og í landskjörstjórn og yfirkjörstjórn Reykjavíkurkjördæmis norður. Ingibjörg sat í stjórn Dómarafélags Íslands frá 2014 til 2019, þar af sem formaður félagsins frá 2017 til 2019.
Hver er Eiríkur Elís Þorláksson?
Eiríkur Elís lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2001 og LL.M.- námi við King´s College í London árið 2008. Hann öðlaðist réttindi til málflutnings í héraði árið 2002 og fyrir Hæstarétti árið 2008. Þá lauk hann prófi til að teljast hæfur stjórnarmaður í vátryggingafélagi 2011. Að loknu embættisprófi starfaði Eiríkur Elís um hríð hjá óbyggðanefnd en hóf árið 2002 störf á lögmannastofu þar sem hann starfaði til ársins 2011, þar af sem meðeigandi frá 2004. Frá 2012 hefur hann starfað við lagadeild Háskólans í Reykjavík, fyrst sem lektor en sem dósent frá 2017, auk þess sem hann hefur sinnt lögmannsstörfum samhliða á þeim tíma. Frá mars 2019 til apríl 2024 gegndi hann starfi deildarforseta lagadeildar Háskólans í Reykjavík auk þess að sinna kennslu við aðra háskóla. Þá hefur hann tvisvar verið settur dómari við Landsrétt, samtals í um fjögurra mánaða skeið og verið varadómandi í Endurupptökudómi frá 2021. Eiríkur Elís hefur jafnframt ritað tvær fræðibækur í lögfræði og fjölda ritrýndra fræðigreina og setið í stjórnum ýmissa félaga, svo sem Tryggingamiðstöðvarinnar hf. og Stoða hf., í stjórn Bókaútgáfunnar Codex og gerðardóms Viðskiptaráðs Íslands, þar af sem formaður frá 2022 til 2024.

Komment