
Baráttukonan Sema Erla Serdaroglu birti færslu í gær á Facebook þar sem hún gagnrýnir frumvarp ríkisstjórnarinnar um brottvísunarbúðir fyrir fólk á flótta, sem rætt var um á Alþingi í gær. Sema, sem kallar búðirnar fangabúðir, segir umræðuna einkennast af því að núverandi og fyrrverandi dómsmálaráðherrar deildu um hver á mesta heiðurinn að hugmyndinni, en enginn þingmaður hafi gagnrýnt að stefnt sé að því að frelsissvipta fólk sem ekki hefur framið brot.
„Að öðru leyti einkenndist samtalið að miklu leyti af pissukeppni um hver á hefur staðið sig best í því að fækka fólki sem sækir um vernd hér á landi á milli þess sem hamingjuóskum rigndi yfir þingheim vegna framgöngu þessa skelfilega máls,“ skrifar Sema Erla sem er aðjúnkt hjá menntasviði HÍ og stofnandi Solaris - hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi.
Í færslunni skrifar Sema Erla að enginn hafi talað með fólki á flótta á Alþingi eða fyrir mannréttindum þess og að frumvarpið sé í andstöðu við stjórnarskrá landsins.“
„Svo mikill er áhugi þingheims á frumvarpi sem mun umbylta verndarkerfinu á Íslandi til hins verra, jaðarsetja og einangra fólk að öllu leyti og stangast á við stjórrnarskrá Íslands.“
Að lokum segir að þingheimur hafi sammælst um að gera umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi að glæp.
„Enginn gagnrýndi þau áform ríkisstjórnarinnar að setja á laggirnar sérstakt fangelsi fyrir útlendinga. Enginn andmælti því að það eigi að frelsissvipta fólk sem hefur ekkert gert af sér. Enginn talaði gegn innleiðingu á þessu hættulega lagafrumvarpi. Það tók enginn afstöðu með fólki á flótta og mannréttindum þess. Enginn. Þingheimur hefur sammælst um að glæpavæða það að sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi og þar með þau sem dirfast að gera svo.“

Komment