Samþykkt var að reisa nýtt sýninga- og æfingarými við Þjóðleikhúsið og segir leikhússtjóri alla í leikhúsinu vera í skýjunum yfir komandi framkvæmdum
Menningarnótt var sett með formlegum hætti á þrepum Þjóðleikhússins í gær en leikhúsið fagnar 75 ára afmæli í ár.
Logi Einarsson menningar,- nýsköpunar- og háskólaráðherra ávarpaði gesti og færði þjóðleikhússtjóra Magnúsi Geiri Þórðarsyni viljayfirlýsingu í tilefni stórafmælisins.
Yfirlýsingin kunngerir vilja ríkisstjórnarinnar til þess að ráðast í gerð viðbyggingar við Þjóðleikhúsið sem mun styrkja starfsemi þess svo um munar og leysa úr fjölmörgum, áratugagömlum úrlausnarefnum með fullnægjandi hætti.
„Það er mikið fagnaðarefni að ríkisstjórnin skuli vera einhuga um þessa skynsamlegu og löngu tímabæru fjárfestingu. Með þessari ákvörðun er Þjóðleikhúsinu gefinn kostur á að vaxa og dafna, auka sértekjur sínar og gera reksturinn hagkvæmari. Þetta er viðeigandi gjöf til þjóðarinnar á þessu tímamótaári lykilstofnunar í íslensku menningarlífi,“ sagði Logi Einarsson menningar,- nýsköpunar- og háskólaráðherra.
Frá opnun Þjóðleikhússins árið 1950 hefur íbúafjöldi höfuðborgarsvæðisins þrefaldast en á sama tíma hefur aðstaða leikhússins lítið breyst.
Í hartnær 40 ár hefur verið kallað eftir því að ráðist verði í byggingu einfaldrar og hagkvæmrar byggingar á nærliggjandi lóð sem gæti hýst annað leiksvið, svokallaðan „svartan kassa,” sem er sveigjanlegra en hefðbundið leiksvið.
Gert er ráð fyrir að umrædd bygging geti tekið á móti um 250-320 áhorfendum á hverja sýningu með tilheyrandi tekjum fyrir Þjóðleikhúsið.
Skortur á slíku rými hefur verið fyrirferðarmikill flöskuháls í starfsemi Þjóðleikhússins sem hefur ekki getað nýtt til fulls innviði sína án slíkrar aðstöðu.
Með viðbyggingunni er þó ekki aðeins þessi vandi úr sögunni. Þjóðleikhúsið hefur jafnframt skort æfingaaðstöðu, sem hefur haft faglegan og fjárhagslegan vanda í för með sér.
Viðbyggingin mun hýsa æfingaaðstöðu sem og verðmætt búninga- og leikmunasafni leikhússins sem liggur að óbreyttu undir skemmdum í núverandi húsnæði.
Þá munu aðgengismál Þjóðleikhússins taka stakkaskiptum með tilkomu nýja hússins, en þau hafa lengi þarfnast úrbóta.
Með viðbyggingu á nærliggjandi lóð eru því leyst þó nokkur aðkallandi mál í einu og starfsemi Þjóðleikhússins sameinuð á einn stað.
Frumgreining, sem ráðuneytið lét gera, gerir ráð fyrir að fjárfestingin muni nema um tveimur milljörðum króna og að byggingin verði um 2-3000 fermetrar að stærð.
Næstu skref eru að fela Framkvæmdasýslunni - Ríkiseignir verkefnið og óska formlega eftir að hafin verði undirbúningsvinna og áætlanagerð á vegum stofnunarinnar. Að þeirri vinnu lokinni taka við verklegar framkvæmdir með það að markmiði að viðbyggingin verði tekin í notkun árið 2030, á 80 ára afmæli Þjóðleikhússins.

Magnús Geir Þórðarson.
„Við hér í Þjóðleikhúsinu erum hreinlega í skýjunum með þær frábæru fréttir að langþráður draumur um nýtt leiksvið og aðrar úrbætur í húsnæðismálum Þjóðleikhússins verði að veruleika. Samþykkt að reisa nýtt sýninga- og æfingarými við Þjóðleikhúsið , því að þetta er í fyrsta sinn frá því að leikhúsið var vígt sem nýtt leiksvið er byggt. Sérhannað leikhús býður upp á einstaklega spennandi ný og fjölbreytt tækifæri til að skapa nútímalegar og heillandi sýningar. Byggingin mun gera okkur enn betur kleift að sinna okkar hlutverki og skapa ríkulegri verðmæti fyrir landsmenn alla. Við þökkum ráðherra og ríkisstjórninni innilega fyrir stuðninginn við Þjóðleikhúsið og leikhúslífið í landinu,“ sagði Magnús Geir Þórðarson, þjóðleikhússtjóri.
Komment