
Bandarískar hernaðaraðgerðir gegn meintum eiturlyfjasölum í Venesúela, ásamt hótunum Donalds Trump um mögulega innrás til að steypa Nicolás Maduro forseta af stóli, hafa vakið mikinn ugg hjá Evrópuríkjum sem eiga yfirráðasvæði á Karíbahafi, að mati sérfræðinga.
Áhyggjur Frakklands, Hollands og Bretlands eru slíkar að þau hafa hafið takmörkun á upplýsinga- og njósnamiðlun til Bandaríkjanna um Karíbahafið af ótta við að upplýsingarnar verði notaðar til árása sem teldust ólöglegar samkvæmt lögum þeirra ríkja, samkvæmt embættismönnum og heimildarmönnum sem AFP ræddi við.
Bretland á nokkur smærri erlend svæði frá nýlendutímanum, en eyjarnar Martiník og Gvadelúpeyjar sem og Franska Gvæjana á meginlandi Suður-Ameríku eru formlegt hluti af Frakklandi. Holland er í landfræðilega viðkvæmastri stöðu, en eyjarnar Aruba, Bonaire og Curacao, svokallaðar ABC-eyjar, eru allar hluti hollenska konungsríkisins og liggja rétt undan ströndum Venesúela.
Venesúela hefur sakað Washington um að ætla sér stjórnarskipti í Caracas með síauknum hernaðarviðbúnaði, þar á meðal með flugvélamóðurskipi, herskipum og nokkrum huliðssprengjuflugvélum.
Bandaríkin saka Maduro um að stýra „hryðjuverkasamtökum á vegum eiturlyfjakartels“, ásökun sem hann neitar. Frá september hafa bandarískir hermenn drepið að minnsta kosti 83 manns í loftárásum á báta sem þeir segja flytja eiturlyf á alþjóðlegu hafsvæði, samkvæmt samantekt AFP úr opinberum gögnum.
Bandaríkin hafa hins vegar ekki birt neinar sannanir fyrir því að fólkið sem varð fyrir árásunum á Karíbahafi og í austurhluta Kyrrahafs hafi í raun verið eiturlyfjasalar.
Trump sagði nýverið að dagar Maduro væru taldir og neitaði að útiloka hernaðaraðgerðir á landi, en bætti við að hann væri opinn fyrir samningaviðræðum við leiðtogann.
„Hollendingar hafa áhyggjur af ABC-eyjunum sem eru um 50 kílómetra frá ströndum Venesúela,“ sagði franskur hernaðarembættismaður sem ekki vildi láta nafns síns getið.
Þær „væru á fremstu víglínu“ ef til átaka kæmi, sagði evrópskur hernaðarráðgjafi, sem einnig talaði nafnlaus.
Hætta að miðla rekstrartengdum upplýsingum
Í ljósi takmarkaðra valkosta gagnvart afdráttarlausri stefnu Trump, hafa þessi þrjú ríki ákveðið að hætta að láta Bandaríkjamenn hafa ákveðnar upplýsingar, sögðu fjölmargar heimildir.
„Við erum sérstaklega á varðbergi gagnvart pólitískri misnotkun þjónustunnar og brotum á mannréttindum,“ sagði Erik Akerboom, yfirmaður leyni- og öryggisþjónustu Hollands, við De Volkskrant.
„Engin Evrópuþjóð, þar með talin Frakkland, mun senda Bandaríkjamönnum rekstrartengdar upplýsingar í núverandi ástandi ef þær gætu verið notaðar sem grundvöllur fyrir árás á skip,“ sagði Dimitri Zoulas, yfirmaður OFAST, frönsku eiturlyfjadeildarinnar, við Radio Caraibes (RCI).
Þetta hefur ekki verið staðfest opinberlega af frönskum yfirvöldum, en öryggisheimildarmaður sagði: „Það er 100 prósent ljóst að Evrópumenn senda Bandaríkjunum ekki neinar upplýsingar sem geta leitt til árása.“
Í Bretlandi greindi The Times frá því að Richard Hermer, ríkislögfræðingur og helsti lagalegi ráðgjafi stjórnvalda, hafi hvatt ráðherra til að stöðva upplýsingamiðlun af ótta við að Trump gæti „myrt“ eiturlyfjasala í Karíbahafi.
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Marco Rubio, vísaði þó slíkum fréttum á bug og sagði þær „falsfréttir“.
Telja ekki að sambandið raskist
Richard Dearlove, fyrrverandi yfirmaður bresku leyniþjónustunnar MI6, sagði við AFP að staðan væri ekki fordæmalaus og að hún hefði áður komið upp til að koma í veg fyrir að Evrópuríki yrðu samsek í aðgerðum sem væru löglegar í Bandaríkjunum en ólöglegar í Evrópu.
„Þetta hefur ekki áhrif á heildarmiðlun upplýsinga. Þetta er staðbundið og sértækt mál. Og þetta hefur gerst áður að mínu viti,“ sagði hann.
Evrópuríkin eru meðvituð um áhættuna við að ögra stjórn Trump.
„Áður en við segjum nei við Bandaríkin og látum það berast út, verðum við að hugsa okkur tvisvar um, því þau láta okkur hafa mikla vitneskju,“ sagði heimildarmaður úr evrópskri njósnaþjónustu.
Að sögn fyrrverandi bandarísks herforingja sem starfaði að eiturlyfjamálum á svæðinu, er framlag Evrópuríkja til upplýsingaöflunar Bandaríkjamanna þó mjög takmarkað.
Samkvæmt frönskum heimildarmanni hefur þessi varfærni Evrópuríkjanna aðallega „fræðilegar afleiðingar“, því Bandaríkjamenn hafi einfaldlega ekki þörf fyrir upplýsingarnar.
Dearlove lagði áherslu á að þar sem málið sé „í rauninni lagalegt“ þá muni það ekki hafa áhrif á stærra samhengi upplýsingaöflunar yfir Atlantshafið.
„CIA skilur þetta mjög vel. Þetta er vel þekkt viðfangsefni sem stundum veldur vandræðum, en það bendir ekki til grundvallarbreytingar á samskiptum í greiningarstarfi,“ sagði hann.
Komment