Brynjar Níelsson, fyrrverandi Alþingsmaður og fyrrverandi héraðsdómari, er spenntur fyrir komandi borgarstjórnarkosningum ef marka má nýlega færslu hans á samfélagsmiðlum. Þá segir hann grunnskóla höfuðborgarinnar vera þá dýrustu og lélegustu í heiminum. Brynjar vísar þó ekki í nein gögn máli sínu til stuðnings.
„Af því að ég er Reykvíkingur hef ég áhuga á borgarstjórnarkosningunum í vor. Ef flokkarnir, sem eru í minnihluta núna, ætla að ná árangri í þeim kosningum þurfa þeir að leggja áherslu á málefni sem skipta íbúa borgarinnar máli og eru hluti af lögbundnu hlutverki borgarstjórnar,“ skrifar Brynjar um komandi kosningar. „Þeir sem ætla að gera gagn í borginni geta ekki eytt orkunni í ESB, loftslagsmál, skipuleggja mótmæli til stuðnings Hamas og til að úthúða Ísrael eða fyllast kvíða vegna Trump.“
Brynjar segir að allir viti að þessi mál séu í lamasessi eftir þriggja áratuga samfelldan vinstri meirihluta, hvort sem það er leik- og grunnskóli, skipulagsmál, húsnæðismál, umferðarmál eða fjármál borgarinnar. „Það verður að teljast sérstakt afrek að reka dýrasta grunnskóla í öllum heiminum en jafnframt með slakasta árangurinn. Langvarandi skortur á lóðaframboði hefur að auki kostað alla landsmenn stórfé með aukinni verðbólgu og hærri vöxtum,“ heldur hann áfram.
„Samfylkingin ætlar að bregðast við þessu ófremdarástandi, eftir að hafa stjórnað borginni í allan þennan tíma, með því að búa til nýtt lið í anda Alex Ferguson og fá nýjan stjóra frá Sjálfstæðisflokknum, sem komst nýlega að því að reynslan hafi breytt honum úr hægri manni í krata. Ég veit ekki hvað maðurinn hefur verið að gera eftir að knattspyrnuferlinum lauk en það er óskiljanlegt að reynsla geti sveigt hægri menn til vinstri,“ skrifar þingmaðurinn fyrrverandi.
„Hélt að það gæti bara gerst ef menn fengju vinnu hjá RÚV.“


Komment