
Gæsluvarðhald yfir Margréti Höllu Hansdóttur Löf, sem hefur stöðu sakbornings í andláti Hans Löf, hefur verið framlengt.
Áður hafði Margrét verið úrskurðuð í gæsluvarðhald til dagsins í dag en hún var handtekin í kjölfar andláts föður hennar þann 11. apríl síðastliðinn. Þó hún hafi að sögn játað að hafa beitt foreldra sína ofbeldi, neitar hún því að hafa myrt föður sinn en hún segist ekki hafa verið nærri honum þegar hann hneig niður á heimili þeirra í Súlunesi í Garðabæ. Dánarorsök hafa ekki verið kunngjörð en rannsókn er nýlokið.
Þegar Margrét var síðast úrskurðuð í gæsluvarðhald lagði Mannlíf fram fyrirspurn um ástæðu þess. „Vegna þess að hún er undir sterkum grun um að hafa framið alvarlegt ofbeldisbrot og því er það talið nauðsynlegt, með tilliti til almannahagsmuna,“ sagði Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, þegar hann var spurður út í ástæðuna.
Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem sent var á fjölmiðla rétt í þessu, kemur fram að gæsluvarðahaldi yfir Margréti hafi nú verið framlengt um fjórar vikur, eða til 29. júli, á grundvelli almannahagsmuna.
Komment