Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, er einn af þeim sem bjóða sig fram í prófkjöri Samfylkingarinnar en hann sækist eftir þriðja sætinu.
Umrætt er innan flokksins hversu duglegur Guðmundur hefur verið að fá fólk til að skrá sig í flokkinn og er talið að stuðningur hans gæti hreinlega ráðið því hvort Pétur Hafliði Marteinsson eða Heiða Björg Hilmisdóttir verði oddviti í komandi borgarstjórnarkosningum.
Fólk innan flokksins er sammála því að baráttan í þetta sinn sé sérstaklega hörð og hefur sú saga gengið milli fólks að Guðmundur sé með fanga í afplánun á sínum snærum til að hringja í fólk til að hvetja það til að kjósa Guðmund en fáir hafa barist jafn mikið fyrir réttindum fanga og hann.
„Það er ótrúlegt hvað ímyndunaraflið virðist vera virkt þegar líður á flokksvalið,“ sagði Guðmundur um málið við Mannlíf „Ég tek þessu þó af fullri ró, enda er hér ekki verið að lýsa raunveruleikanum heldur ágætu dæmi um hvernig sögur verða til þegar stressið eykst.“
Hann tekur þó fram að hann hafi ekki heyrt þessa sögu sjálfur og ekki heldur fólkið í kringum sig.
„Staðreyndirnar eru einfaldar og ekkert leyndarmál. Ég er með virkt kosningakerfi og eigin kosningaskrifstofu þar sem öll símtöl koma, úr símanúmeri skráð á mig persónulega, fylgt er handriti og einungis mælt með mínu framboði. Þar er enginn að hringja undir dulnefni og enginn að starfa utan kerfis. Ef einstaklingar í opnum úrræðum nýta þann rétt sem þeir hafa til að hringja í fólk og láta í ljós stuðning við framboð mitt þá finnst mér það einungis jákvætt. Það er hluti af lýðræðislegri þátttöku og þeir hafa fulla heimild til að hringja. Slík símtöl eru hins vegar á þeirra eigin vegum en ekki mínum og alls ekki hluti af skipulagðri kosningavinnu af minni hálfu,“ segir Guðmundur og segist aldrei hafa haft uppi tilraunir til að beina kosningabaráttu sinni að föngum sjálfum og að hann muni ekki gera það.
Hefur kallað eftir stuðningi fanga og fólks með vímuefnavanda
„Það væri hvorki faglegt né í samræmi við þau gildi sem ég starfa eftir. Áherslur mínar hafa verið skýrar og opnar. Ég hef kallað eftir stuðningi aðstandenda fanga, heimilislausra, fólks með vímuefnavanda, aðstandenda barna og ungmenna með fjölþættan vanda og þeirra sem vilja öflugt og mannúðlegt velferðarkerfi í Reykjavík þar sem fólk fellur ekki á milli kerfa. Ég hef jafnframt höfðað til starfsfólks í velferðarþjónustu og þeirra sem styðja skaðaminnkun,“ segir Guðmundur um prófkjörið og hvað hann stendur fyrir.
„Ef þessi saga leiðir eitthvað gott af sér þá er það vonandi sú umræða að fleiri átti sig á því að fólk sem hefur upplifað jaðarsetningu, þar á meðal fólk í opnum úrræðum, hefur rödd, skoðanir og rétt til þátttöku í lýðræðinu. Það tel ég ekki vandamál heldur styrk. Ég mun áfram halda fókus á málefnin, velferð borgarbúa og þá sýn að Reykjavík sé borg sem setur fólk í forgang. Þar liggur mitt erindi og þar liggur mín orka,“ sagði frambjóðandinn að lokum.


Komment