Guðmundur Kristinn Jónsson hefur verið dæmdur af Héraðsdómi Suðurlands fyrir lögbrot.
Hann var ákærður fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 30. maí 2020, á þáverandi heimili sínu á Selfossi og í bíl, haft í vörslum sínum og án tilskilinnar heimildar eftirfarandi ávana- og fíkniefni og -lyf ætluð til sölu- og dreifingar í ágóðaskyni; samtals 1.015,09 g af maríhúana, 155,21 g af amfetamíni, 53,91 g af kókaíni, 19 stykki af DMT, 1 stykki af Rivotril, 24 stykki af Concerta, 4 pakkningar af Kamagra geli, 1 stykki af Viagra, 3 stykki af Sildenafil Actavis og 2 stykki af LSD, sem lögregla fann við leit í húsnæðinu og bifreiðinni umrætt sinn og lagði hald á.
Hann var einnig ákærður fyrir peningaþvætti með því að hafa, frá 1. júní 2019 fram til 30. maí 2020 tekið við, nýtt, umbreytt, geymt, afhent og/eða aflað sér ávinnings með sölu og dreifingu á ótilteknu magni ávana- 2 og fíkniefna og -lyfja og/eða, og eftir atvikum með öðrum ólögmætum og refsiverðum hætti, samtals 9.987.421 krónur, sem ákærði notaði meðal annars til kaupa á vörum og þjónustu og til eigin framfærslu.
Guðmundur Kristinn neitaði sök og útskýrði meðal annars þann pening sem hafði verið lagður inn á reikninga í hans nafni með því að hann hafi verið að selja Pokémon-spil. Hann hafi lengi safnað slíkum spilum. Í dómnum er sagt að slíkar skýringar væru fráleitar.
Hann var á endanum dæmdur í átta mánaða fangelsi en dómurinn er skilorðsbundinn til tveggja ára. „Enn fremur skal ákærði sæta upptöku á samtals 1.380.783 krónum auk áfallandi vaxta og verðbóta af framangreindri fjárhæð frá 30. maí 2020 til greiðsludags, nánar tiltekið innstæðu að fjárhæð 1.305.783 krónur á bankareikningi nr. 133-15-6921 og innstæðu að fjárhæð 75.000 á bankareikningi nr. 182- 15-200036, “ segir meðal annars í dómnum.

Komment