
Kona búsett í Hafnarfirði hefur stefnt eiginmanni sínum en hún vill skilja við hann að borði og sæng. Tilraunir án aðstoðar lögmanns virðast ekki hafa gengið.
„Aðilar máls kynntust í lok mars 2024. Í upphafi sambands þeirra lék allt í lyndi en eftir að þau gengu í hjúskap í ágúst 2024 hóf stefndi að fjarlægjast stefnanda. Fljótlega læddist þá að stefnanda sá grunur að stefndi hefði einungis gifst henni fyrir hagkvæmni og að um væri að ræða málamyndahjónaband af hans hálfu. Aðilar ræddu skilnað fyrst í upphafi árs 2025 þar sem sundurlyndi hjónabandsins jókst sífellt. Aðilar eiga ekki saman börn og eiga engar sameiginlegar eignir. Stefnanda er kunnugt um að stefndi sé enn staddur á Íslandi en telur hann líkast til ekki með dvalarleyfi hérlendis og ekkert skráð lögheimili,“ segir í stefnunni.
Konan fór fram á skilnað hjá embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í febrúar 2025. Var eiginmaðurinn boðaður til fundar en sinnti ekki mætingum þrátt fyrir fögur fyrirheit samkvæmt stefnunni. Konan sér ekki fært um að vera lengur í því hjónabandi sem stofnað var til, enda ljóst að sambandi aðila er lokið og hafa samskipti þeirra engin verið undanfarið. Er því nauðsynlegt, að hennar mati, að höfða mál þetta þar sem hjón eru ekki sammála um skilnað.
Helga Vala Helgadóttir, fyrrum þingmaður Samfylkingarinnar, er lögmaður konunnar.

Komment