
Hakkari sem kallar sig Martha Root tók þrjár vefsíður tengdar hvítri yfirburðahyggju niður í beinni útsendingu á sviði, klædd sem Pink Ranger úr Power Rangers-seríunni.
Root, sem er dulnefni þýsks hakkara, lauk ræðu sinni á árlegri hakkararáðstefnu Chaos Communication Congress með því að eyða netþjónum vefsíðnanna WhiteDate, WhiteChild og WhiteDeal á meðan hún var enn á sviðinu.
Fyrirlesturinn hélt hún ásamt blaðamanninum Christian Fuchs og rithöfundinum Evu Hoffman. Þau lýstu WhiteDate sem „Tinder fyrir nasista“. Vefsíðan WhiteChild segist tengja saman sæðisgjafa sem aðhyllast hvíta yfirburðahyggju við egggjafa, á meðan WhiteDeal er líkt við Taskrabbit, nema eingöngu fyrir rasista.
Root lét þó ekki nægja að eyða síðunum, sem allar eru enn niðri. Áður en hún felldi netþjónana notaði hún gervigreindarspjallforrit til að safna notendagögnum af WhiteDate.
Samkvæmt Root voru nákvæmar staðsetningarupplýsingar notenda í myndskrám á síðunum og netöryggi þeirra svo lélegt að það „myndi láta jafnvel AOL-reikning ömmu þinnar roðna“.
Í kjölfarið lak hún gögnum um notendur, þar á meðal nöfnum, myndum, lýsingum, aldri, staðsetningu (með nákvæmum hnitum og landi og fylki), kyni, tungumáli, kynþætti og öðrum persónuupplýsingum sem notendur höfðu sjálfir sett inn, að sögn TechCrunch.
„Ímyndið ykkur að kalla ykkur „meistarakynþáttinn“ en gleyma að tryggja eigið vefsvæði, kannski ættuð þið fyrst að læra að hýsa WordPress áður en þið stefnið að heimsyfirráðum,“ skrifaði Root.
Líkt og stefnumótaforritið The Right Stuff, sem nýtur stuðnings Peters Thiel og átti í vandræðum með að laða að konur, hefur WhiteDate aðeins náð að safna um 6.500 notendum, þar af eru aðeins 14% konur. „Kynjahlutfall sem lætur Strumpaþorpið líta út eins og femíníska útópíu,“ skrifaði Root.
Rekstraraðilar allra þriggja vefsíðnanna staðfestu á samfélagsmiðlum að hökkunin hefðu átt sér stað í beinni.
„Þau eyða öllum vefsíðum mínum opinberlega á meðan áhorfendur fagna. Þetta er net-hryðjuverk,“ skrifaði stjórnandi síðanna á X. „Engin furða að sum þeirra feli andlit sín. En við munum finna þau, og trúið mér, það munu verða afleiðingar.“

Komment