
Hálfnakinn karlmaður hefur fundist látinn á reki skammt frá strönd í Taílandi, einungis klæddur svörtum nærbuxum.
Talið er að um sé að ræða 41 árs gamlan Ástrala sem kona hans tilkynnti týndan þann 7. maí í Phuket, Taílandi. Yfirmaður björgunarsveita við Freedom-ströndina, sem er afar vinsæl meðal ferðamanna, varð var við líkið um 20 metrum frá landi þegar hann var á eftirlitsferð um morguninn 7. maí. Hann kallaði á aðstoð og lögreglumenn frá Karon-lögreglustöðinni komu á vettvang ásamt björgunaraðilum, sem bundu líkið með reipi og drógu það í land við erfiðar sjóaðstæður.
Lögreglufulltrúinn Wiwat Chamnankit staðfesti að aðstandendur mannsins hefðu verið látnir vita. „Við teljum að hafstraumarnir hafi verið of kröftugir fyrir hann til að komast aftur að landi,“ sagði hann.
Hann bætti við: „Ferðamenn ættu ekki að fara í sjóinn við svona aðstæður nema í fylgd með reyndum leiðsögumanni.“ Krufning mun fara fram á Vachira-sjúkrahúsinu í Phuket.
Tvö andlát á jafn mörgum dögum
Atvikið átti sér stað daginn eftir annað banaslys þar sem ástralskur ferðamaður, Corey Walsh að nafni, lést einnig við strendur Phuket. Hann hafði stokkið í sjóinn af báti á meðan hann var ölvaður.
Þetta átti sér stað þriðjudaginn 6. maí þegar Corey fór í bátsferð sem stóð yfir í 45–60 mínútur frá eyjunni Koh Racha Yai. Hann stökk í sjóinn nálægt vinsælu köfunarsvæði en tókst ekki að synda á móti sterku straumunum og var dreginn niður.
Lögreglan fékk tilkynningu kl. 14:28 að staðartíma og þegar björgunaraðilar komu á vettvang var Walsh meðvitundarlaus. Hann var endurlífgaður um borð í bátnum áður en hann var fluttur á Chalong-sjúkrahúsið í Phuket, sem er í um 15 mínútna akstursfjarlægð. Þrátt fyrir viðleitni lækna var hann úrskurðaður látinn skömmu síðar.
Lögreglufulltrúinn Kanen Somrak frá Chalong-lögreglustöð sagði að Walsh hefði drukkið mikið magn áfengis áður en hann fór í sjóinn. Hann sagðist hafa stökkvið ítrekað í sjóinn og aftur upp í bátinn áður en hann drukknaði. Engin ólögleg efni fundust á vettvangi, en tómar áfengisflöskur voru í bátnum, að því er fram kemur á MailOnline.
Komment