Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno og fyrrum starfsmaður Twitter, vandar fyrrum vinnuveitenda sínum ekki kveðjurnar í nýrri færslu á samfélagsmiðlum en hann segir vinnuaðstæður hjá fyrirtækinu hafa verið slæmar.
„Um það bil tveimur vikum eftir að ég hóf störf hjá Twitter var ég beðinn um að setja saman teymi til að búa til „edit“ hnappinn,“ skrifar Haraldur og segir að notendur Twitter hafi lengi beðið um slíkt.
„Hönnunarferlið var einfalt. Ég held að við höfum gert það á einum degi,“ heldur hann áfram.
„En þá byrjaði erfiða vinnan. Twitter var ekki byggt til að búa til hluti. Stundum fannst mér eins og hver sem er í fyrirtækinu gæti sagt nei við hugmynd og þá væri hún dauð.“
Haraldur segir að það hafi tekið fjóra mánuði að fá mat á hversu langan tíma það gæti að búa til „edit“ hnappinn. Þegar matið kom í hús kom í ljós að það myndi taka 18 mánuði að búa til slíkan hnapp fyrir Twitter.
„Eftir mikla samninga og baráttu var það skorið niður í held ég 8 mánuði. Og lausnin var afar gölluð og takmörkuð,“ segir Haraldur og tekur fram að hann hafi verið ósáttur með hvernig hnappurinn var kynntur til leiks en teymi Haraldar fékk ekki neitt opinbert lof fyrir verk sitt heldur var annað fólk sem eignaði sér verkið. Hann hafi beðið um að hönnuður, sem hafi unnið við verkið frá fyrsta degi, fengi verðskuldað lof en Haraldur hafi aðeins fengið símtal frá reiðum yfirmanni.
Hann tekur fram að þetta hafi allt gerst áður en Elon Musk keypti fyrirtækið.
„Twitter var versta stjórnaða fyrirtæki sem ég hef komist í kynni við,“ segir hann að lokum.
Komment