
Tónlistarhátíðin ErkiTíð fer fram dagana 25. og 26. október í Listasafni Reykjavíkur og Háteigskirkju undir yfirskriftinni Litróf hljómanna. Að þessu sinni verður lögð sérstök áhersla á tónlist tengda hugleiðslu og heilun. Er um að ræða fyrstu tónlistarhátíðina á Íslandi þar sem slík tónlist er í fyrirrúmi.
Meginþema hátíðarinnar er fjölbreytileiki, og tónlist sem byggir á hughrifum og heilun verður í fyrirrúmi. Þessi tónlistarstefna hefur vaxið ört á alþjóðavísu á undanförnum árum. Fjöldi listafólks tekur þátt í hátíðinni í ár og verða frumflutt vel á annan tug nýrra tónverka, sem flest hafa verið samin sérstaklega fyrir ErkiTíð.
Hátíðin hefur frá upphafi lagt sérstaka áherslu á íslenska tónlist og var fyrst haldin árið 1994 við tilefni Lýðveldisafmælis Íslands. Þá voru fluttar helstu raf- og tölvutónsmíðar íslenskra tónskálda frá upphafi.
ErkiTíð er opin öllum óháð kyni, aldri eða uppruna. Með hátíðinni er markmiðið að tengja saman fortíð, nútíð og framtíð íslenskrar tónlistar. Þá leggur hátíðin jafnframt áherslu á nýsköpun á sviði tónlistar þar sem mörk á milli listgreina eru oft máð út og nýjar leiðir kannaðar, sem stuðlar að fjölbreyttari menningu samtímans.
Komment