
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er ekki sáttur við ástandið í Reykjavík og telur hann lýsingu í borginni vera lélega.
„Gatnalýsingu er mjög ábótavant í borginni nú, þegar dimmasti tími ársins gengur í garð,“ sagði Kjartan í samskiptum við Mannlíf. „Ástandið er slæmt í mörgum hverfum. Að undanförnu hefur það verið einna verst í miðborginni þar sem nokkur hundruð ljósastaurar eru óvirkir og heilu og hálfu göturnar án lýsingar. Margir rekstraraðilar eru ósáttir við ástandið enda getur slæm götulýsing fælt fólk frá miðborginni og haft slæm áhrif á viðskiptin.“
Kjartan segir að margir hafi tekið eftir þessu á Iceland Airwaves síðustu helgi. „Skilst mér að um alvarlega bilun sé að ræða í sumum götum, t.d. í Austurstræti, Bankastræti og gönguhluta Laugavegar, og að erfitt sé að útvega varahluti til viðgerðar. Í mörgum tilvikum sé þó nóg að skipta um peru en þau peruskipti láta samt á sér standa,“ og segir borgarfulltrúinn að ljóst sé að viðhald ljósastaura í borginni hafi verið vanrækt alvarlega um langt skeið.
„Að mínu mati er slík vanræksla ábyrgðarhluti enda er góð götulýsing mikið öryggisatriði, bæði hvað varðar umferðaröryggi en ekki síður varðandi almennt öryggi fólks. Til dæmis kvenna, sem eru seint á ferli og í meiri hættu en karlar að verða fyrir áreitni og kynbundnu ofbeldi.“
Kjartan segist hafa flutt tillögu um málið á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur í gær en að afgreiðslu þeirra hafi verið frestað til næsta fundar ráðsins að ósk fulltrúa meirihlutans.

Komment