
Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarstjóri Reykjavíkur, segist ekki muna eftir að hafa sent skilaboð þar sem hún biður um stuðning gegn „frægum karli“. Þetta kom fram í Pallborðinu á Vísi þar sem rætt var við Heiðu og Pétur Marteinsson, sem bæði sækjast eftir oddvitasæti Samfylkingarinnar í borginni en gengið verður til kosnina á morgun.
Gríðarlega margir hafa skráð sig í Samfylkinguna undanfarið eða um 3.000 í Reykjavík og eru nú orðnir um 7.000. Þáttastjórnandi Pallborðsins birti skjáskot af annars vegar skilaboðum frá stuðningsmönnum Péturs og annars vegar skilaboð sem virðast koma frá borgarstjóranum sjálfum. Í skilaboðum frá stuðningsfólki Péturs er viðtakendur hvattir til þess að velja frambjóðendur eftir lista sem búið er að setja upp, þar sem Pétur er í fyrsta sæti. Í skilaboðunum sem virðast koma frá Heiðu borgarstjóra er beðið um stuðning gegn frægum karli. Þar stendur meðal annars orðrétt:
„Mér finnst þetta mjög erfið barátta þar sem karl með enga reynslu en frægur á að koma í stað mín. Ég óttast um okkar mál og áherslur.“
Með skilaboðunum fylgir hlekkur á auðkenning.umsjá.is þar sem fólk gat skráð sig í flokkinn þar til á miðnætti í gærkvöldi.
Aðspurð í Pallborðinu hvort skilaboðin séu frá henni, segist Heiða Björg þó ekki mun eftir að hafa sent þessi skilaboð.
„Ég nefnilega man ekki eftir að hafa sent þau. Nei, ég man ekki eftir því. En ég ætla ekki að útiloka það, ég hef sent þónokkur skilaboð og þessi virka bara ... ef ég hef sent þau þá,“ en þarna grípur þáttastjórnandinn fram í fyrir henni og spyr hana hvort henni finnist frægð Péturs hafa áhrif.
„Pétur hefur held ég sagt það sjálfur að hann er að koma nýr inn í þetta með enga reynslu og mér finnst skrítið ef flokkurinn velur það umfram konu með mikla reynslu og hefur sýnt að hún getur náð miklum árangri. En síðan er það flokksins að velja en svo er það spurning, ef það er satt hjá þér að það eru 3.000 nýjir búnir að skrá sig er spurning hvort það sé flokkurinn sem sé að velja. Það kemur þá bara í ljós.“

Komment