
Írska körfuknattleikssambandið, Basketball Ireland, hefur lýst yfir miklum áhyggjum af áframhaldandi mannúðarkrísu á Gaza og segir að verið sé að meta næstu skref eftir að drátturinn í undankeppni EM kvenna 2027 fór fram í dag.
Írland var dregið í A-riðil ásamt Ísrael, Bosníu og Hersegóvínu og Lúxemborg. Í tilkynningu frá sambandinu kemur fram að rætt hafi verið við FIBA Europe og að beðið sé eftir skýringum á ýmsum atriðum. Einnig verður haft samráð við leikmenn, þjálfarateymi, Sport Ireland, stjórnvöld og aðra hagaðila á næstu dögum. Vonast er til að hægt verði að gefa frekari upplýsingar í næstu viku.
Írska liðið á að hefja leik í undankeppninni með tveimur heimaleikjum í nóvember: gegn Lúxemborg 12. nóvember og Bosníu og Hersegóvínu 15. nóvember, áður en liðið mætir Ísrael á útivelli 18. nóvember.
Samkvæmt reglum FIBA gæti sambandið átt á hættu háar sektir ef það neitar að spila gegn Ísrael. Ef liðið mætir ekki í fyrri leikinn gæti það kostað allt að 80 þúsund evrur, eða 13.200.000 krónur í sekt, en ef báðir leikirnir við Ísrael yrðu felldir niður gæti sektin numið 100 þúsund evrum, eða 16,5 milljónum króna auk brottvikningar úr undankeppni EM 2027 og 2029.
Ef Írland myndi ákveða að draga sig alveg úr undankeppninni áður en hún hefst, gæti það leitt til 30 þúsund evra eða tæprar fimm milljóna króna sektar og hugsanlegra frekari viðurlaga samkvæmt reglum FIBA, þar á meðal útilokunar úr komandi mótum.
Komment