
Hjálmtýr Heiðdal, formaður Félagsins Ísland-Palestína, gagnrýnir harðlega forgangsröðun íslenskra stjórnvalda í mannréttindamálum í nýrri Facebook-færslu. Tilefnið er aukafundur Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna um stöðu mannréttinda í Íran, sem Ísland átti frumkvæði að.
Í færslu sinni vísar Hjálmtýr í tilkynningu utanríkisráðuneytisins þar sem fram kemur að:
„Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna kemur saman á sérstökum aukafundi að frumkvæði Íslands til að fjalla um alvarlega stöðu mannréttinda í Íran í kjölfar víðtækra mótmæla í landinu undanfarið. Ísland leiddi ákall um aukafundinn í samstarfi við kjarnahóp ríkja sem leiða árlega ályktun um stöðu mannréttinda í Íran. Fundurinn fer fram 23. janúar nk. kl. 14:00 að staðartíma í Genf.“
Hjálmtýr segir þetta sýna að íslensk utanríkisþjónusta geti sýnt frumkvæði þegar vilji sé fyrir hendi, en telur að sama áhugi gildi ekki um stöðu Palestínumanna á Gaza.
„Þetta sýnir okkur að íslensk utanríkisþjónusta tekur við sér í sumum málum – en börnin á Gaza mega áfram deyja úr hungri og vosbúð og okkar utanríkisráðherra tekur ekki frumkvæði í því máli – það má ekki styggja Ísrael og Bandaríkin,“ skrifar hann.
Að mati Hjálmtýs endurspeglar þetta tvískinnung í mannréttindamálum, þar sem Ísland beiti sér af krafti gagnvart sumum ríkjum en sýni aðhald eða þögn þegar um bandamenn stórvelda er að ræða. Hann hefur ítrekað kallað eftir því að íslensk stjórnvöld beiti sér af sama þunga gagnvart mannréttindabrotum Ísraels og þau geri í öðrum sambærilegum málum.

Komment