Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti fjölmörgum verkefnum í gær og nótt, meðal annars vegna fíkniefnabrota, aksturs undir áhrifum og skemmdarverka.
Tveir menn voru handteknir vegna gruns um brot á fíkniefnalöggjöfinni. Þeir voru báðir látnir lausir að lokinni skýrslutöku. Þá tilkynnti vegfarandi lögreglu um fundið þýfi í miðbænum. Eigandi mun hafa fundist og hyggst hann sækja munina á lögreglustöð.
Í Laugardalnum var tilkynnt um skemmdarverk þegar eldur var kveiktur inni í lyftu í bílastæðishúsi. Skemmdir reyndust minniháttar og er gerandi ókunnur.
Ökumaður var stöðvaður og kom í ljós við athugun að hann hafði verið sviptur ökuréttindum. Málið var afgreitt með sekt.
Í Hafnarfirði voru tilkynnt brot, annars vegar þjófnaður úr verslun sem var afgreiddur á vettvangi og hins vegar húsbrot þar sem gerandi er ókunnur. Þá var maður handtekinn í Hafnarfirði vegna gruns um ölvunarakstur og eftir að hafa ekið utan í aðra bifreið. Hann var vistaður í fangageymslu.
Að auki voru þrír ökumenn stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Allir voru látnir lausir að lokinni blóðsýnatöku.


Komment