
Áður óþekktur rússneskur hakkarahópur, sem kallast „Laundry Bear“, stóð að baki netárásum á hollensku lögregluna síðasta haust, að sögn hollenskra öryggis- og leyniþjónusta (AIVD og MIVD) á þriðjudag. Í árásunum var stolið viðkvæmum gögnum tengdum starfi lögreglunnar.
Árásirnar í september voru hluti af víðtækari herferð hópsins gegn vestrænum ríkjum og NATÓ-aðilum.
„Við höfum séð að þessi hópur hefur komist yfir viðkvæmar upplýsingar hjá fjölmörgum stofnunum og fyrirtækjum um allan heim,“ sagði Peter Reesink, yfirmaður MIVD.
Hann bætti við að hópurinn hefði sérstakan áhuga á löndum Evrópusambandsins og NATÓ.
Að sögn yfirvalda í Hollandi hefur hópurinn einnig beint spjótum sínum að hernum, stjórnvöldum og varnarsamningaaðilum, auk upplýsingatæknifyrirtækja í nokkrum löndum. Þeir hafa jafnframt reynt að komast að tækni hjá háþróuðum hollenskum fyrirtækjum, sem Rússland hefur ekki aðgang að vegna vestrænna viðskiptaþvingana.
Rannsóknirnar leiddu í ljós að Laundry Bear væri „mjög líklega hópur studdur af rússneska ríkinu“, að sögn hollenskra öryggisyfirvalda.
Í því skyni að styrkja varnir gegn hópnum birtu hollensku stofnanirnar einnig upplýsingar um tækni sem hakkararnir notuðu við innbrotin.
„Þetta dregur úr líkum Laundry Bear á árangri og hjálpar til við að verja stafræn netkerfi betur,“ sagði Erik Akerboom, forstjóri AIVD.
„Þetta eykur seiglu okkar sem þjóðar,“ bætti hann við.
Komment