
Flugfélagið Icelandair hefur ráðist í uppsagnir, og samkvæmt heimildum fréttastofu Vísis var um fjörutíu starfsmönnum sagt upp störfum í morgun. Ekki hefur tekist að ná í upplýsingafulltrúa félagsins vegna málsins, en þar sem fjöldi starfsmanna er yfir tilteknum mörkum telst um hópuppsögn að ræða samkvæmt lögum.
Uppsagnirnar koma í kjölfar þess að Icelandair skilaði sjö milljarða króna hagnaði á þriðja ársfjórðungi, sem er minna en á sama tíma í fyrra þegar hagnaðurinn nam 8,5 milljörðum. Félagið hefur þó varað við lakari afkomu og áætlar nú að reksturinn verði neikvæður á næsta ári, um 1,2 til 2,4 milljarða króna fyrir vexti og skatta.
Icelandair hefur bent á að kostnaður hafi verið meiri en áætlað var, og er félagið nú í miðjum hagræðingaraðgerðum. Bogi Nils Bogason, forstjóri félagsins, sagði nýlega í tilkynningu til Kauphallar að markmiðið væri að snúa rekstrinum ekki seinna en árið 2026.
Sagði Bogi að í því ljósi hefði fyrirtækið aðlagað flugframboðið að aðstæðum og muni fækka flugvélum um tvær og hætta rekstri Boeing 767 breiðþotna í lok árs 2026.
Bogi hefur jafnframt boðað frekari hagræðingu og sagði að komandi kjaraviðræður við flugstéttirnar væru lykilatriði í því að tryggja arðbæran rekstur félagsins til framtíðar.
Uppsagnirnar nú koma tæpum tveimur vikum eftir þessa yfirlýsingu.
Flugfélagið Play, helsti keppinautur Icelandair, varð gjaldþrota í september, og hefur samkeppnisumhverfi á íslenskum flugmarkaði því tekið verulegum breytingum á undanförnum vikum.
                    
    
    
    
    
    
    
    
    
    
    
    
    
    
    
    
    
    
    
    
Komment