
Líkur eru á „litríkum og glæsilegum norðurljósum“, svipuðum eða betri og voru laugardaginn 10. janúar síðastliðinn.
Sævar Helgi Bragason, ritstjóri Stjörnufræðivefsins, greinir frá „hraðfleygu og orkuríku“ sólgosi sem varð í gærmorgun og er líklegt að lendi á jörðinni klukkan 11:30 í fyrramálið, en jafnvel í nótt.
„Aðaláhrif geislunarstorma af þessu tagi eru á flugferðir, gervitungl og fjarskipti. Þannig verða flugfarþegar fyrir meiri geislun en alla jafna, gervitungl geta slegið út og GPS leiðsagnarkerfi orðið fyrir verulegum truflunum. Engin áhrif eru á okkur sem erum á Jörðu niðri,“ segir Sævar Helgi á Facebook.
Skýjafar er heppilegt fyrir norðurljósasýningar á mest öllu landinu á þeim tíma sem gosið er talið munu skella á hnettinum.
Sævar Helgi bendir á að hægt sé að fylgjast með norðurljósaspá og raunupplýsingum á vef hans, Ísland á nóttunni.
Hér er færsla Sævars Helga í heild:
Í nótt eða annað kvöld (19.-20. janúar) gætu orðið litrík og glæsileg norðurljós, svipuð eða jafnvel betri en þau sem urðu laugardaginn 10. janúar. Af hverju?
Í gærmorgun varð sólblossi að styrk X1,9 sem olli kröftugu kórónugosi og stefnir hratt á Jörðina (sjá myndskeið). Líkön benda til þess að skýið skelli á Jörðinni í kringum kl. 11:30 í fyrramálið en óvissan er mikil (nokkrar klukkustundir til og frá) og gæti skýið jafnvel hæft okkur í nótt.
Gosið er mjög hraðfleygt og orkuríkt. Nú þegar hefur róteindastormur mælst sögulega hár (S4), sá hæsti síðan í stormunum miklu í október-nóvember 2003. Það eitt og sér segir lítið sem ekkert um möguleg norðurljós en gefur hugmynd um hversu kröftugt gosið er.
Aðaláhrif geislunarstorma af þessu tagi eru á flugferðir, gervitungl og fjarskipti. Þannig verða flugfarþegar fyrir meiri geislun en alla jafna, gervitungl geta slegið út og GPS leiðsagnarkerfi orðið fyrir verulegum truflunum. Engin áhrif eru á okkur sem erum á Jörðu niðri.
Líklega verður hraði sólvindsins um 900 km/s þegar það skellur á Jörðinni. Vonandi verður Bz-gildið neikvætt og þéttleikinn hár. Það þýðir frábært norðurljósakvöld með nokkrum glæsilegum og litríkum hviðum og rauðum lit sem sést með berum augum.
Verði Bz-gildið að mestu í norður verður sýningin miklu veikari. Hunsaðu þess vegna allar Kp-gildisspár (frá 0-9) því þær spá alls, alls ekki fyrir um norðurljós eða hvenær þau verða sterkust og virkust.
Á sama tíma verður Jörðin fyrir áhrifum frá hraðfleygum sólvindi úr kórónugeil. Sömu aðstæður og voru laugardaginn 10. janúar.
Engin leið er að segja til um hvort við fáum glæsilega sýningu fyrr en skýið skellur á gervitunglunum. Vaktið því mælana undir rauntímagögn um geimveður á Iceland at Night.
Komment