Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, brast í grát fyrr í dag á Alþingi þegar hún ræddi um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ísland undirritaði samninginn 30. mars 2007 og var hann fullgiltur 23. september 2016.
Eitt af helstu baráttumálum Flokks fólksins hefur verið að fá samninginn lögfestan á Íslandi og var greitt atkvæði um hann á Alþingi í dag. 45 þingmenn samþykktu málið en fimm þingmenn greiddu ekki atkvæði.
„Frú forseti. Ég gæti næstum því farið að gráta, ég er svo glöð að vera komin hingað. Öllum skal með lögum tryggður réttur til aðstoðar vegna öldrunar, örorku, atvinnuleysis og hvers annars sambærilegs. Þetta boðar Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þrátt fyrir það hef ég ítrekað staðið hér til að verja tilverurétt fatlaðs fólks, sem á í rauninni þegar þennan stjórnarskrárvarða rétt, vegna þess að þau eru talin kosta hugsanlega of mikið. En í dag munum við greiða atkvæði um þessi réttindi fatlaðs fólk, um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hjartans þakkir fyrir að vera komin hingað. “ sagði Inga í ræðu sinni.
Markmið samningsins er að efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra, ásamt því að efla og vinna að virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn þess. Samningurinn felur í sér bann við hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og að fötluðu fólki sé tryggð jöfn og árangursrík réttarvernd gegn mismunun á öllum sviðum.


Komment