
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og mennta- og barnamálaráðherra flaug með Saga Premium, áður Saga Class, þegar hún ferðaðist á EM í handbolta í Malmö á dögunum. Þetta staðfestir ráðuneyti Ingu í tölvupósti.
Inga, sem er einnig ráðherra íþróttamála, fór á leik Íslands og Ungverjalands þann 20. janúar en Ísland sigraði 24-23. Í svari frá upplýsingafulltrúa ráðuneytis Ingu, við spurningum Mannlífs um ferð Ingu, kemur fram að hún hafi ferðast á fyrsta farrými, Saga Premium og að ráðuneytið hafi borgað fluggjaldið.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fór einnig út til að horfa á son sinn keppa fyrir hönd Íslands á EM en samkvæmt upplýsingum Mannlífs fór hún á eigin vegum. Hún þáði þó boð Handknattleikssambands Íslands um að mæta á leik Svíþjóðar og Íslands í Malmö en þar sem hún var þá stödd í Kaupmannahöfn þurfti hún ekki að ferðast með flugi.
Morgunblaðið gerði úttekt á utanlandsferðum ráðherra ríkisstjórnarinnar í fyrra en þar kemur fram að Valkyrjurnar þrjár, þær Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Inga Sæland, mennta- og barnamálaráðherra, hafi nánast alltaf ferðast í fyrsta farrými. Þannig hafi Kristrún, þegar úttektin var gerð í júlí 2025, farið sjö sinnum í vinnuferð utan og í öll skiptin ferðast á fyrsta farrými. Sama sagan var með Þorgerði Katrínu en hún ferðaðist í öll 13 skiptin á fyrsta farrými. Inga Sæland ferðaðist þrisvar sinnum utanlands, þar af helmingur flugleggja á fyrsta farrými eins og það er orðað í frétt mbl.is. Þá ferðaðist dómsmálaráðherra, Þorgbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir á fyrsta farrými í öll sex skiptin sem hún ferðaðist utan. Hanna Katrín Friðriksdóttir, atvinnumálaráðherra flaug tvisvar á fyrsta farrými af fjórum ferðum sínum og Alma Möller, heilbrigðisráðherra fór fjórar ferðir alls, þar af tvisvar sinnum á Business Class.
Athygli vekur að þegar úttekt Morgunblaðsins er skoðuð má sjá að allir karlkyns ráðherrar ríkisstjórnarinnar ferðuðust að jafnaði á almennu farrými.
Saga Premium
Saga Premium er fremst í flugvélinni og er farrými fyrir þá sem vilja gera vel við sig. Hágæðaþjónusta og þægindi eru í fyrirrúmi hér.
- 2 innritaðar töskur (allt að 32 kg hvor)
- Handfarangurstaska (10 kg) og lítið veski eða sambærilegt *
- Forgangur um borð í vél
- Forgangsinnritun
- Hraðleið í gegnum öryggisleit þar sem hún er í boði
- Sætaval - innifalið þegar flugið er á vegum Icelandair
- Þægilegri sæti
- Máltíð innifalin
- Þráðlaust net – innifalið fyrir 2 tæki
- Afþreyingarkerfi
- Aðgangur að betri stofunni á Keflavíkurflugvelli***
- Vildarpunktasöfnun
- Breytingar leyfðar, en greiða þarf breytingagjald og fargjaldamun

Komment