
Íslenskur karlmaður á sextugsaldri hefur verið dæmdur af Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir kynferðisbrot.
Í ákærunni var sagt að maðurinn hafi útbúið myndefni af nekt eða kynferðislegri háttsemi annarra með því að koma farsíma sínum fyrir á salerni og án samþykkis taka upp tvö myndbönd.
Í öðru myndbandinu sést kona girða niðrum sig og nota salernið og sést í beran rass og kynfærasvæði hennar. Í hinu tók karlmaðurinn upp myndband af fjórum konum koma saman inn á salernið þar sem tvær þeirra sáust nota salernið. Átti þetta sér stað í afmælisveislu á heimili hans í september árið 2023.
Maðurinn neitaði sök í málinu og sagði að um óviljaverk hafi verið að ræða. Hann hafi óvart gleymt símanum inni á baði í tvígang og óvart kveikt á upptökustillingu í bæði skipti. Í dómnum kemur fram að maðurinn glími við sjúkdóm sem geri það að verkum að hann geti verið gleymnari en annað fólk. Vegna sjúkdómsins er hann með stirðleika, oft með talsverðan skjálfta í vinstri handlegg og alltaf með skertar fínhreyfingar í höndum og fótum. Skertar fínhreyfingar handa geri það að verkum að hendurnar og fingurnir geta verið klaufskir, sérlega við fínlega hluti eins og að hneppa, renna upp, nota snjallsíma og fleira.
Í dómnum kemur fram að konurnar hafi uppgötvað að upptakan væri í gangi þegar þær voru fjórar saman á baðherberginu. Hitt myndbandið hafði verið tekið upp fyrr um kvöldið. Segja þær að þær hafi eytt öðru myndbandinu strax en tekið hitt upp á síma í þeirra eigu til að varðveita en eytt því svo úr síma mannsins.
Í niðurstöðu dómsins segir að ásetningur mannsins teljist sannaður og að framburður hans hafi verið ótrúverðugur. „Verður þannig ekki ráðið af upptökunni að ákærði hafi þá verið með líkamleg einkenni vegna veikinda sinna sem gætu hafa haft þau áhrif sem ákærði lýsir,“ segir meðal annars í dómnum.
„Eins og atvikum er háttað má ætla að frekari upptöku á efni hafi verið afstýrt þegar slökkt var á upptökunni,“ segir einnig í dómnum.
Maðurinn var sakfelldur og dæmdur í 60 daga fangelsi en sá dómur er skilorðsbundinn til tveggja ára en hann hefur aldrei áður gerst sekur um refsivert brot.
Þá þarf hann að greiða einni konunni 400 þúsund krónur auk vaxta í misbætur. Einnig var hann dæmdur til að greiða allan málskostnað en sá nemur tæpum tveimur milljónum króna.
Komment