
Hinn ítalski tískuhönnuður Giorgio Armani er látinn, að því er fyrirtæki hans greindi frá í dag.
„Með óendanlegri sorg tilkynnir Armani Group fráfall skapara síns, stofnanda og óþreytandi drifkrafts: Giorgio Armani,“ segir í tilkynningu tískuhússins.
Armani, sem var 91 árs, var samofinn nútímalegri ítalskri tísku og glæsileika. Hann sameinaði listræna hæfileika hönnuðarins við viðskiptavit og byggði upp fyrirtæki sem velti um 2,3 milljörðum evra (2,7 milljörðum Bandaríkjadala) á ári.
Hann hafði verið heilsuveill um hríð og neyddist til að sleppa þátttöku í sýningum tískuhússins á tískuviku karla í Mílanó í júní, í fyrsta sinn á ferli sínum sem hann missti af eigin sýningu.
Armani, sem kallaður var „Re Giorgio“, Giorgio konungur, var þekktur fyrir að hafa eftirlit með hverju smáatriði safna sinna og öllum þáttum rekstursins, allt frá auglýsingum til þess hvernig ætti að greiða módelunum áður en þau gengu út á sviðið.
Samkvæmt tilkynningu fyrirtækisins verður kveðjusalur opnaður í Mílanó á laugardag og sunnudag. Að því loknu verður haldin einkajarðarför á ótilgreindum tíma.
Komment