
Lögmaðurinn Jón Steinar Gunnlaugsson vill að Silju Báru Ómarsdóttur, sem er rektor háskóla Íslands, verði „vikið úr starfi“ og segir einnig að það sé „ótrúlegt að heyra um framferði ofstækismanna í Háskóla Íslands þegar hleypt var upp fundi þar fyrir skemmstu.“
Þarna vísar Jón Steinar í í atvik er átti sér stað í Háskóla Íslands fyrr í mánuðinum er ísraelski hagfræðiprófessorinn Gil Epstein ætlaði að halda fyrirlestur sem fjallar um áhrif gervigreindar á vinnumarkað sem og lífeyrismál, en mótmælendur komu í veg fyrir að fyrirlesturinn yrði haldinn og sögðust vera ósáttir við þjóðerni ræðumannsins.
Segir Jón Steinar að það sé eins og „þessir ofstækismenn séu komnir aftan úr forneskju í aðgerðum sínum gegn tjáningarfrelsi hér á landi“ og telur hann framferði þeirra hafa verið „ósæmilegt á alla mælikvarða.“
Jón Steinar segir líka að „viðbrögð yfirvalda í Háskólanum eru ennþá verri. Rektor Háskóla Íslands ætti auðvitað að ganga fremstur í að fordæma þessa árás á tjáningarfrelsi á vettvangi skólans.“
Ljóst er að Jón Steinar er ósáttur við viðbragðsleysi nýkjörins rektors, Silju Báru Ómarsdóttur og segir hann að frá rektori hafi „hvorki heyrst hósti né stuna“ er varðar þetta mál.
Og Jón Steinar er með það á hreinu að Silja Bára taki pokann sinn:
„Það hlýtur að vera skýlaus krafa allra þeirra sem segjast styðja tjáningarfrelsi að víkja beri þessum æðsta yfirmanni skólans þegar í stað úr starfi, því hann beitir hér sýnilega þögninni til samþykkis við þessu ofbeldisverki. Í húfi er virðing Háskóla Íslands.“
Komment