Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur undirritað reglugerð sem felur í sér að fæðingarstyrkur námsmanna og fólks utan vinnumarkaðar hækkar um 30.000 kr. Lágmarksgreiðsla fæðingarorlofs hækkar um sömu upphæð. Hækkanirnar koma strax til framkvæmda og eiga við um greiðslur fyrir júlí sem greiddar eru um næstu mánaðarmót en greint er frá þessu í tilkynningu.
„Ég vildi að hækkunin kæmi strax til framkvæmda og það hefur nú orðið að veruleika. Það er mér hjartans mál að tryggja að efnahagur foreldra hafi ekki áhrif á þau tækifæri sem börn njóta og hér tökum við utan um tekjulægsta hópinn sem oft á í erfiðleikum með að ná endum saman í fæðingarorlofi,“ segir Inga Sæland.
Lágmarksgreiðslur eru greiddar þeim sem eru á vinnumarkaði en hafa lægstu tekjurnar. Fæðingarstyrkur er hins vegar greiddur námsmönnum og þeim sem ekki eru á vinnumarkaði.
232.061 krónur var lágmarksgreiðsla fæðingarorlofs og 101.260 krónur var fæðingarstyrkingurinn fyrir þessa breytingu samkvæmt Island.is.
Komment