
Í pistli sem embætti Landlæknis hefur birt á samfélagsmiðlum tekur embættið afstöðu með hinsegin fólki en miklar umræður hafa skapast á samfélagsmiðlum um hinsegin fólk og þá sérstaklega trans fólk eftir ummæli Snorra Mássonar, þingmanns Miðflokksins, í Kastljósi í gær þar sem rætt var um stöðu trans fólks á Íslandi og í heiminum.
„Meginhlutverk embættis landlæknis er að stuðla að heilbrigði landsmanna - allra landsmanna,“ stendur í tilkynningu embættisins. „Heilsa mótast m.a. af samfélagslegum aðstæðum, viðhorfum og aðgengi að þjónustu og ein grundvallarforsenda góðrar heilsu er að njóta mannréttinda. Þegar mannréttindi hinsegin fólks eru ekki virt getur það haft alvarleg áhrif á heilsu. Þunglyndi, kvíði, sjálfsvígshugsanir og líkamleg vanlíðan eru algengari meðal þeirra sem verða fyrir félagslegri útskúfun eða ofbeldi. Þetta er ekki vegna þess að hinsegin fólk sé veikara, síður en svo – heldur vegna þess að samfélagið hefur oft brugðist þeim.“
Þá segir í pistlinum að mannréttindi sé þannig ekki aðeins siðferðileg krafa heldur lífsnauðsynleg forsenda heilsu. Í þessu felist réttur til að lifa lífinu án þess að þurfa að vera í felum með kynvitund og kynhneigð, án ótta við mismunun, ofbeldi eða útilokun. Þá segir einnig að öll eigi rétt á viðeigandi heilbrigðisþjónustu og að ginsegin fólk geti þurft sérhæfða þjónustu, t.d. í tengslum við kynstaðfestandi meðferð, HIV-forvarnir eða geðheilbrigði. Mannréttindi tryggja að slík þjónusta sé veitt af virðingu, fagmennsku og án fordóma. Og við eigum öll rétt á vernd gegn mismunun - því miður eru of mörg dæmi þar sem hinsegin einstaklingar upplifa fordóma, sem getur leitt til vantrausts og þess að fólk forðist að leita sér heilbrigðisþjónustu. Að þessu þurfum við að hyggja.
Embætti telur að lausnin liggi í virðingu.

„Að tryggja mannréttindi hinsegin fólks er ekki aðeins réttlætismál – það er heilbrigðismál. Þegar fólk fær að vera það sjálft, lifa í öryggi og fá þjónustu sem tekur mið af þeirra þörfum, þá fær það tækifæri til að njóta bestu heilsu.“
Þá segir embættið að mannréttindi séu ekki lúxus heldur líf og fyrir hinsegin fólk eru þau lykillinn að lífi í heilbrigði, mannlegri reisn og von. „Embætti landlæknis hvetur alla landsmenn til að tryggja mannréttindi fyrir okkur öll sem hér búum, þannig byggjum við sterkara og betra samfélag. Mannréttindi fyrir öll eiga að vera sjálfgefin, þú þarft ekki að skilja, þú þarft bara að virða,“ stendur að lokum í pistlinum
Komment