
Friðrik Einarsson, fyrrverandi leigubílstjóri, birti á samfélagsmiðlum fyrr í dag myndband af leigubílstjóra að rífast við tvær konur á bílastæðinu við Bláa lónið.
Í myndbandinu má sjá konurnar reyna að sækja ferðatöskur sínar úr leigubílnum en leigubílstjórinn stígur á milli og lokar skottinu. Þegar skottið er á leiðinni niður slæst það höfuð annarrar konunnar.
Samkvæmt því sem leigubílstjórinn segir í myndbandinu skulda þær honum 76 þúsund krónur en konurnar neita að greiða þær. Hann segist hafa beðið eftir þeim í þrjá tíma og það útskýri hátt verðlag. Í myndbandinu sjást konurnar hringja í lögregluna til að útskýra fyrir henni að leigubílstjórinn neiti að afhenta þeim töskurnar. Þá heyrist maðurinn segjast hafa búið í Houston svo hann viti hvernig fólk frá Mexíkó hugsi og kallar í framhaldinu konurnar þrjóta.
Að sögn Friðriks mætti lögreglan á svæðið og fengu konurnar töskurnar í framhaldinu.
Friðrik hefur vakið mikla athygli á undanförnum árum en hann hefur lengi fjallað um það sem hann telur vera slæmt ástand á leigubílamarkaði, sérstaklega hjá Keflavíkurflugvelli. Hann hefur ítrekað sagt að leigubílstjórar af erlendum uppruna svíki farþega og að sumir þeirra starfi án réttra leyfa.
Komment