
Líklegt þykir að embætti læknayfirlæknis í Los Angeles geti ekki ákvarðað dánarorsök hinnar 15 ára Celeste Rivas, þar sem lík hennar hafði verið fryst, að sögn heimilda tengdum rannsókninni sem TMZ hefur undir höndum. Celeste fannst í skottinu á Tesla-bifreið rapparans D4vd í september síðastliðnum.
Samkvæmt þessum heimildum fannst líkið í hræðilegu ástandi, það var búið að taka höfuðið af og þótt búkurinn væri að mestu heill, þá höfðu útlimir verið fjarlægðir og skornir í marga hluta.
Talið er að líkamspartarnir hafi verið „að hluta til frosnir“ og virðast hafa verið að þiðna þegar þeir fundust í skottinu.
Bifreiðin hafði staðið hreyfingarlaus í nokkra daga á götu í Hollywood Hills, nálægt leiguhúsi sem D4vd dvaldi í. Hún var síðar fjarlægð af dráttarbifreið, og þá fannst líkið.
Eins og áður var greint frá var líkið í svo slæmu ástandi að rannsóknaraðilar vissu ekki í fyrstu hvort um væri að ræða karl eða konu.
Við móttöku hjá embætti læknayfirlæknis var upphaflega talið að um væri að ræða fórnarlamb „augljóss manndráps“, en heimildir TMZ segja að nú sé verið að glíma við að staðfesta formlega dánarorsök, og líklegt sé að niðurstaðan verði „óákveðið“.
Aðrir heimildarmenn tengdir rannsókninni segja að manndrápsdeild lögreglunnar í Los Angeles líti samt sem áður á málið sem morðrannsókn, og jafnvel þótt dánarorsök verði óákveðin, sé unnt að ráðast í handtöku.
TMZ greindi frá því að D4vd sé nú grunaður um aðild að dauða Celeste. Að auki hefur komið fram að til sé annar grunaður aðili sem talið er að hafi aðstoðað við limlestinguna.
Lögmaðurinn Mark Geragos sagði í hlaðvarpsþættinum 2 Angry Men að hann þekkti nafn hins grunaða, og lögregla telji að sú manneskja hafi verið þátttakandi „fyrir, meðan á og eftir“ dauða Celeste.
TMZ hefur einnig greint frá því að lykilatriði málsins sé ferð sem D4vd fór í aðfaranótt einhvers dags í vor, til afskekktrar byggðar í Santa Barbara-sýslu, þar sem hann dvaldi í um tvær klukkustundir.
Ef lík Celeste var flutt þangað mánuðum áður en það fannst í Los Angeles, er talið að líkamsleifarnar hafi verið geymdar í frystihólfi í langan tíma, þar til þær enduðu í Tesla bifreið D4vd í september.

Komment