Eftir að Árni Guðmundsson kærði sjálfan sig til lögreglu vegna eigin áfengiskaupa á netinu var hann af sumum uppnefndur „leiðinlegasti maður Íslandssögunnar“. Hann kippir sér lítið upp við það og segir að uppnefnið dragi einfaldlega athyglina að málstað sínum og að það sé ekkert annað en jákvætt og gott mál og segir einnig að honum sé alveg slétt sama hvað fólk kalli hann eða uppnefni. Árni segir með ákveðnum hætti að unga kynslóðin eigi einfaldlega skilið að fá að vera alveg í friði frá áreiti áfengisiðnaðarins; því yngri kynslóðir þekki alls ekki bakföll í forvarnarmálum.
„Ég held að þarna séum við komin með gott dæmi þegar þú ert í opinberri umræðu og menn eru búnir með nestið sitt og geta ekki farið í rökrænar eða heilbrigðar umræður. Þá nota menn svona stimplun.“ Spurður um hvernig honum líði með titilinn eða stimpilinn hristir hann hausinn (enda er Árni langt frá því að vera leiðinlegur maður, hann er skemmtilegur, viðræðugóður og fjölhæfur maður sem spilar á bassa og undirritaður hefur aldrei á ævinni hitt leiðinlegan bassaleikara) og segir einfaldlega:

„Þetta er eins og að skvetta vatni á gæs. Ég er bara feginn. Þetta dregur athygli að málstaðnum. Mér er alveg sama hvað fólki finnst um mig, sérstaklega þeim sem eru þess sinnis eins og þeir sem eru að gera svona færslur. Þannig að ég uni þessum titli vel. Íslandssögunnar, ekki landsins!“
Árni Guðmundsson er í viðtali hjá Mannlífi þar sem farið er yfir stöðuna í áfengismálum hér á landi, en Árni er afar ósáttur við netsölu á áfengi sem og auglýsingar á því.
Áfengi einn af stærstu áhættuþáttum brjóstakrabbameins
Samkvæmt mati Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar má rekja stærsta hluta vanheilsu fólks í Evrópu til þess lífsstíls sem það stundar, og heilsa einstaklingsins byggist að stórum hluta á vali hans og ákvörðunum um hvernig hann hagar lífi sínu. Kemur fram að þar vegi áfengisneysla þungt, en neysla á áfengi er annar stærsti áhættuþáttur sjúkdóma í Evrópu og sá þriðji stærsti í heiminum öllum.
Og óhófleg neysla áfengis sem og annarra vímugjafa er án alls vafa einn af helstu áhættuþáttum lélegrar heilsu og ótímabærra dauðsfalla hjá einstaklingum á aldrinum 25-29 ára. Þá er vert að nefna að mikil drykkja áfengis er einn af stærstu áhættuþáttum brjóstakrabbameins hjá konum og benda greiningar til þess að áhættan sé næstum því 50% meiri hjá þeim sem að stunda mikla áfengisdrykkju miðað við þær konur sem ekki neyta þess. Þá sýna niðurstöður rannsókna að dagleg áfengisneysla - jafnvel seint á ævinni - tengist hækkandi tíðni krabbameins í ristli og endaþarmi.
Já, það fylgir ekki bara þynnka og bömmer - almenn og líkamleg vanlíðan - neyslu áfengis, heldur svo margt annað og mikið af því skerðir lífsgæði fólks um heilan helling og sumt er hreinlega lífshættulegt eins og dæmin hér að ofan sanna.
Berst fyrir málstaðinn
Árni Guðmundsson hefur árum saman barist ötullega gegn auglýsingum á áfengi hér á landi og hefur ritað fjölda greina er varða málið. Og hann hefur verið meira en óþreytandi í að gagnrýna auglýsingar á áfengi og mjög aukið og mun auðveldara aðgengi að þessari meira en umdeildu en afar mikið notuðu vöru: Áfengi.
Árni er formaður samtakanna Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum, en þau voru stofnuð þann 1. maí árið 2008. Markmið samtakanna er að berjast gegn birtingu ólöglegra áfengisauglýsinga og bættu auglýsingasiðferði með sérstaka áherslu á vernd barna og unglinga.
Sjálfur starfar Árni - meðfram formennsku í áðurnefndum samtökum - við Háskóla Íslands í deild tómstunda- og félagsmálafræða. Hann hefur verið afar virkur í fag- og fræðasamfélagi æskulýðsmála bæði hérlendis og erlendis og var hann um langt skeið formaður Samtaka Norræna félagsmiðstöðva.
2.800 billjónir í áfengisáróður
Árni segir í viðtali við Mannlíf að „áfengisiðnaðurinn eyðir árlega 2.800.000.000.000 krónum, 2.800 billjónum í áfengisáróður“ og segir hann að þessi staðreynd hafi „augljóslega áhrif, ekki síst á Íslandi, og er veruleg ógn gegn þeim lýðheilsumarkmiðum sem við höfum sett okkur, ekki síst gagnvart börnum og ungmennum - velferð þeirra og réttindum til að vera laus við þennan áróður.“
Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það að áfengisneysla er án alls vafa eitt algengasta vandamál nútímasamfélaga; hefur mjög neikvæð áhrif á fjölmarga einstaklinga með ýmsum hætti. Bæði hvað varðar neytandann sjálfan - aðstandendur hans og fleiri honum tengdum. Ljóst er að misnotkun á áfengi hefur vakið sérstaka og mjög mikla athygli sem umfangsmikið áhyggjuefni í samfélaginu og ýmis líkamleg og andleg heilsufarsvandamál má rekja til misnotkunar þess. Áfengisneysla hefur neikvæð félagsleg áhrif; til að mynda á fjölskyldusambönd og stöðugleika í vinnu. Áfengisneyslan tekur sinn toll af heilsu einstaklingsins; veldur oft tilfinningalegum skaða sem hefur áhrif á sjálfan alkóhólistann og aðra sem eru í hans nánasta umhverfi og ljóst að slíkt getur og hefur spillt nánum tengslum við ættingja, vini og aðra sem alkóhólistinn umgengst, og getur í verstu tilfellum án alls vafa verið lífshættulegt.
Á Íslandi er áfengi eina eiturlyfið sem löglegt er. Og aðgengi að því er einfaldlega afar mikið og hreinlega auðvelt. Líklega er eins auðvelt að ná sér í þetta eiturlyf og að panta sér heimsendingu á vel sveittum skyndibitamat eða að fylla bílinn af bensíni hjá Atlantsolíu við Kaplakrika í Hafnarfirði, sé nóg inni á kortinu.
Undir þetta tekur Árni heilshugar og segir einfaldlega að áfengisiðnaðurinn sé „alger boðflenna í tilveru barna og ungmenna. Allt gengur þetta út að normalísera neyslu og áfengisiðnaðurinn notar svo sannarlega öll trixin í bókinni.“
Hann nefnir dæmi máli sínu til stuðnings, eins og Árni gerir hreinlega alltaf í sínum svörum og málflutningi: Hann nefnir lágkúru, íþróttafélög og allskyns afþreyingu. Sem allt tengist áfengi og auglýsingum á því.
„Dæmi um lágkúruna er þegar að í tölvuleikjum ungra barna birtast áfengisauglýsingar. Samfélagsmiðlar, áhrifavaldar, kvikmynda- og afþreyingariðnaðurinn er nýttur til hins ítrasta“ og segir Árni að „einn anginn af þessar grjóthörðu markaðssókn áfengsiðnarins er til dæmis þessi nýlegu undarlegheit þegar að íþróttafélög, þvert á markmið sín, fara að selja áfengi á kappleikjum. Þetta hefur því miður allt saman afar slæm áhrif.“
Fram hefur komið og á það bent ítrekað að varnarleysi barna og unglinga gagnvart áfengi er mun meira en hjá fullorðnum, enda er líkami þeirra minni; þau skortir reynslu af drykkju og hafa ekki byggt upp þol fyrir áfengi. Einnig að neysla áfengis á yngri árum geti haft neikvæð langtímaáhrif og ef einstaklingur neytir áfengis ungur er líklegt að hann verði háður því síðar meir. Þá hefur komið í ljós í rannsóknum að neysla áfengis á yngri árum geti haft mjög neikvæð áhrif á þroska heilans á þeim tíma, og aukið verulega líkur á vímuefnavandamálum hjá einstaklingnum í framtíðinni. Þá hefur verið bent á með góðum rökum að mikil áfengisdrykkja snemma á lífsleiðinni geti haft áhrif á minnisgetu heilans sem og aðra taugastarfsemi líkamans. Þeir einstaklingar sem neyta mikils áfengis á unglingsárum hafa tilhneigingu til meiri og þyngri neyslu í framtíðinni; einnig er líklegt talið að áfengi muni valda verri andlegri heilsu, minni menntun og auknum líkum á glæpum í upphafi fullorðinsára. Hefur til að mynda mikil áfengisdrykkja hjá unglingum verið tengd við bílslys sem valda dauða, sjálfsvígum, slæmri frammistöðu í skólum - slagsmálum og skemmdarverkum.
Sé mið tekið af lýðheilsumarkmiðum hér á landi nefnir Árni að það sé aukning á neyslu áfengis og nikótíns hjá þeim yngri, og að þetta gangi hreinlega ekki upp og „því miður er það svo að ýmislegt lætur undan; áfengisneysla og níkótínneysla barna og ungmenna hér á landi er einfaldlega að aukast. Það er bláköld staðreynd“ segir hann.
Maðurinn sem kærði sjálfan sig

Árni Guðmundsson.
Árni er maður sem lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna og hefur verið afar áberandi í málum er snúa að forvörnum varðandi áfengismál í ræðu og riti. Og árið 2024 greip hann til afar óvenjulegs ráðs; gaf sig þá fram við laganna verði: Játaði brot sitt gagnvart áfengislöggjöfinni undanbragðalaust. Skýlaust. Sagðist réttilega hafa gerst sekur um að hafa keypt áfengi ólöglega. Já, Árni gekk algerlega keikur inn á lögreglustöðina við Hlemm; gerði sér lítið fyrir og kærði sjálfan sig fyrir brot á áfengislöggjöfinni undanbragðalaust. Hann hafði þá fest kaup á íslenskum bjór á netinu af tveimur aðilum, og lögreglan tók við kærunni og lagði hald á áfengið.
Árni lýsti því á sínum tíma að viðskiptin hafi gengið þannig fyrir sig að einfaldara væri að panta sér flatböku. Hann pantaði íslenskan bjór sem var kominn til hans rétt rúmum hálftíma eftir að hann pantaði bjórinn og segir að „auðvitað er þetta smásala áfengis. Og um það þarf engum blöðum um að fletta.“
Árni segir að lögreglan skelli skollaeyrum við kvörtunum og kærum hvað varðar þessi mál - í það minnsta hans eigin máli sem ekki hefur enn verið til lykta leitt, en hann segir „að vonandi verður þetta til að vekja einhverja umræðu um þetta.“ Bætir því við að þetta sé algjörlega „borðleggjandi mál, og það er undarlegt að þingið skuli ekki enn vera búið að taka á þessu, mjög undarlegt.“
Það eru auðvitað fleiri en Árni sem hafa kært slík mál til lögreglu, og eðlilega hafa samtökin sem Árni er í forsvari fyrir gert slíkt hið sama - Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum, en „við höfum ekki haft erindi sem erfiði þrátt fyrir að hafa kært áfengisauglýsingar til lögreglu ítrekað. Það er einfaldlega ekki brugðist við þeim og það sama á við um ólöglega smásölu áfengis af sölustað eða í gegnum netið. Ólöglegum áfengisauglýsingum hefur fjölgað verulega og í takt við þá lögleysu, ólöglega áfengissölu, sem Lögreglustjórinn í Reykjavík lætur afskiptalausa. Mér og fleira lýðheilsuþenkjandi fólki blöskrar algjörlega stjórnsýsla landsins varðandi ólöglegar netsölur.“
Kalt mat Árna varðandi stöðuna er það að „íslenska forvarnarmódelið, sem nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar, lætur að endingu undan, enda er þarna hreinlega ráðist gegn meginstoðum þess“ og segir Árni einnig að „íslenska forvarnarmódelið er í eðli sínu samfélagssáttmáli um velferð barna og ungmenna, og byggir á samveru barna og foreldra; virkri þátttöku í félags- og íþróttastarfi, fræðslustarfi, verði, sölu og aðgengi áfengis.“
Og segir hiklaust:
„Algerlega ólögleg smásala einkaaðila á áfengi síðustu misseri - sem viðkomandi nefna „erlenda netsölu“ - er látin átölulaus af yfirvöldum á Íslandi.“
Hann færir í tal að „rannsókn hefur staðið yfir í rúmlega fimm ár þó svo að fyrir liggi sænskur Hæstaréttardómur um ólögmæti. Þetta er nákvæmlega sama mál og nákvæmlega sömu forsendur og sama lagaumhverfi; það er nákvæmlega engin lagaleg óvissa nema í höfðinu á þeim einkaaðilum sem hafa hagsmuni af því að selja áfengi.“
Árni segir hiklaust að almennt ríki ekkert neyðarástand í áfengissölu hérlendis. Nefnir að um fyrirkomulag áfengissölu á Íslandi hafi ríkt sátt almennt og ríki í raun enn. Þó ekki hjá öllum.
Háværir áfengissalar og sérhagsmunaaðilar vaða uppi
„Já, nema í raun og veru afar háværum og hópi áfengissala og sérhagsmunaaðila, sem græða á tá og fingri af sölunni. Það á þó alls ekki við um þá alla því ýmsir í þeim ranni eru alveg sáttir við núverandi fyrirkomulag.“
Árni nefnir einn stjórnmálaflokk hér á landi – Sjálfstæðisflokkinn - eða réttara sagt hluta hans, og vandar honum ekki beint kveðjurnar, er beinskeyttur í gagnrýni sinni. Þannig er Árni einfaldlega - það er eldmóður í honum. Segir að það séu „nokkur innan Sjálfstæðisflokksins á þingi sem byggi pólitíska tilveru sína á að koma áfengi í matvöruverslanir. Og svo sérhagsmunahópur, ólöglegu áfengissalarnir, sem telja sig hafa fundið holu í lögunum sem engin er. En þetta er klárt brot. Og við getum ekki látið hópa sem keyra á ítrustu gróða sjónarmiðum eða pólitískum trúarbrögðum ráða áfengisstefnunni í landinu.“
Hann tiltekur Skeifuna sem dæmi um algjört offramboð á áfengi á Íslandi:

„Í Skeifunni er ein vínbúð ÁTVR og tvær ólöglegar áfengisverslanir í um það bil 300 metra radíus. Fullkomið offramboð. Framboð, auglýsingar, verð og aðgengi hafa áhrif á neyslu og sólarhringsþjónustu með heimsendingu hefur veruleg áhrifa á neyslu, ekki síst þeirra sem síst mega við því og ekki síður hvað varðar sölu til barna og ungmenna eins og dæmi eru um af hálfu þessarra svokölluðu erlendu netverslana.“
Hann nefnir að „í afar vandaðri lokaritgerð Stellu Einarsdóttir, í hagfræði, frá júní árið 2022, Samfélagslegur kostnaður vegna áfengisneyslu – Kostnaðargreining, kemur fram að samfélagslegur kostnaður vegna áfengis árið 2021 nam 100.216,7 milljónum króna (100.216.700.000 krónur). Áfengisneysla samkvæmt tölum Hagstofunnar árið 2020 var um sex lítrar af hreinum vínanda á mann hérlendis.“ Hann segir einnig að „í þessu kostnaðarmati er ekki tekið tillit til óáþreifanlegs kostnaðar, eins og endurskoðendur kalla gjarnan þann kostnað sem ekki er hægt að koma með góðu móti inn í excelskjölin, sem dæmi; sorg, andleg líðan, félagslegar afleiðingar, harmur og ógæfa. Aðrar úttektir og rannsóknir hérlendis benda í sömu átt og rannsókn Stellu, meðal annars rannsókn Ara Matthíassonar - Þjóðfélagsleg byrði af áfengis- og vímuefnaneyslu frá árinu 2010 og rannsóknarverkefnið Hver yrðu hugsanleg samfélagsleg áhrif frjálsrar áfengissölu á Íslandi? frá árinu 2014.“
Árni kemur inn á það sölukerfi sem er brúkað hér á landi; sem hann segir vera vera gott, virki vel og samræmi lýðheilsusjónarmið og þjónustu; sölukerfi sem fulltrúar sér- og eiginhagsmuna „tala fyrir svipar til sölu fyrirkomulags í þeim löndum þar sem áfengisneysla er hvað mest, en gengur þó lengra í verki með hrað- og heimsendingum allan sólarhringinn nánast alla daga ársins.“ Segir Árni að því megi „áætla að sérhagsmunaaðilum muni takast, á nokkrum árum, að koma áfengisneyslu hérlendis upp í efstu viðmið, fái þeir til þess tækifæri, sem vonandi verður aldrei.“
Gífurleg aukning og gríðarlegur gróði
Árni segir að „miðað við fjögurra lítra (af hreinum vínanda) aukningu í neyslu, sem ekki getur talist óraunhæft, verður útgjaldaaukning samfélagsins um 67.000.000.000 krónum á ársgrundvelli“ og til að setja þessa „gríðarlegu fjármuni í samhengi, þá er þetta svipuð upphæð og áætlaður samanlagður gróði alls íslenska bankakerfisins síðastliðið ár.“ Segir einnig að „miðað við þessar forsendur má gera ráð fyrir að hver líter af áfengi í aukningu kosti samfélagið aukalega tæplega 17.000.000.000 kr á ársgrundvelli. Þetta eru gríðarlegir fjármunir sem þarf væntanlega að ná inn með auknum álögum, sköttum eða með auknum niðurskurði í heilbrigðis- og velferðarkerfinu sem þegar er vanfjármagnað.“
Árni segir að Íslendingar skilji mjög vel út á hvað lýðheilsa gangi, skilja mikilvægi þess að hafa regluverk sem hefur verndandi áhrif og þá ekki síst í þágu barna og ungmenna. „Við vitum svo vel að áfengi, tóbak og nikótín eru heilsuspillandi vörur sem geta ekki - undir neinum venjulegum kringumstæðum - flokkast sem venjulegar vörur. Þetta er einfaldlega smásala í sinni tærustu mynd. Verið að markaðsvæða áfengissölu sem er þvert á gildandi stefnu og lög hér á landi.“
Skjólstæðingum SÁÁ fjölgar hratt og mikið
Komið hefur margoft fram í fréttum á síðustu árum að netverslun áfengis sé afar mikið áhyggjuefni, og hefur það til að mynda komið á daginn - sögn læknis hjá SÁÁ - að áfengisneysla hér á landi hefur tæplega tvöfaldast á síðustu fjörutíu árum hjá fimmtán ára og eldri; þá hefur fjöldi þeirra skjólstæðinga SÁÁ sem drekka daglega rúmlega þrefaldast á þrjátíu árum.
Margir sérfræðingar í þessum málum hafa varað við þeirri afturför sem hér virðist eiga sér stað - og kemur það skýrt fram í svörum Árna - og sumir líkja þróuninni einfaldlega við stórslys og vitna í þeim efnum í vandaðar og ítarlegar rannsóknir. Verulegum auknum kostnaði er skapast vegna aukinnar neyslu er síðan ýtt út í samfélagið; í formi hærri skatta eða með öðrum álögum á almenning. Allt er þetta til þess að mæta auknum kostnaði í heilbrigðis - og félagskerfinu; en ágóðinn situr eftir hjá sérhagsmunaaðilum og segir Árni að áfengisiðnaðinum hafi einungis eitt markmið - sem er að græða sem allra mest.

Lára G. Sigurðardóttir.
Hefur til að mynda Lára G Sigurðardóttir læknir hjá SÁÁ, og einn helsti sérfræðingur Íslands í lýðheilsufræðum, gert þessu afar mikilvæga máli mikil og góð skil í ræðu og riti; hefur haldið erindi og fyrirlestra á mörgum ráðstefnum og bent með augljósum og afar skýrum hætti - með vísan í góð rök - á það sem hún kallar afturför varðandi neyslu á áfengi og niktótíni hér á landi.
Lára segir mikla aukningu í dagdrykkju vera alveg sérstaklega varhugaverða - stórhættulega samfélagi okkar. Hún nefnir að í kringum árið 1990 hafi um 17 prósent skjólstæðinga sem lögðust inn á Vog með áfengisvanda neytt áfengis daglega. Það hefur breyst heldur betur til hins verra:
„Þegar við skoðun síðustu ár þá kemur á daginn að neyslan er komin upp í 66 prósent, þannig að neyslan á þessu tímabili hefur meira en þrefaldast. Við erum að sjá líka það að neyslan er jafnvel yfir 70 prósent þeir sem neyta áfengis daglega þeir sem eru 50 ára og eldri. Þannig sérstaklega í eldri aldurshópnum þar sem dagneysla er orðin gríðarlega algeng,“ segir Lára og nefnir að mestu áhyggjurnar séu „pressan frá þinginu og nokkrum þingmönnum um að gera áfengissölu frjálsa. Það er það sem allir sérfræðingarnir hafa verið að vara okkur við.“ segir hún, en netsala áfengis hefur aukist gríðarlega síðustu misseri og þar með stóraukið aðgengi fólks að vörunni. „Ríkiseinokun er í raun það form af sölu fyrirkomulagi sem hefur mesta forvarnargildið fyrir þjóðir og við höfum gert vel hingað til,“ segir Lára.
Hún færir einnig í tal að „af 20 efnum, þar á meðal heróíni, krakki, metamfetamíni og tóbaki, má sjá að áfengi trónir á toppnum sem skaðlegasta fíkniefnið.“ Lára segir að verið sé að auka aðgengi að áfengi; sem helst alveg í hendur við aukna áfengisneyslu í samfélaginu og segir hún að mikilvægt sé að horfa á heildarmyndina. „Við þurfum að ákveða hvernig samfélagi við viljum búa í. Viljum við til dæmis stuðla að meira ofbeldi og fleiri umferðarslysum?“
Einnig segir Lára að af áfengisneyslu geti hlotist ýmsir sjúkdómar; til dæmis flogaköst, þunglyndi, kvíði, sjálfsvíg; heilabilun, tauga- og heilaskemmdir. Einnig lifrarbólga, skorpulifur, brisbólga, lungnabólga, berklar, húðnetjubólga og heilahimnubólga. Einnig tiltekur Lára háþrýsting, heilablóðfall, gáttatif, bláæðaseg og fósturskaða. Og það ætti að vera flestum ef ekki öllum ljóst hversu mikil hætta fylgir mikilli neyslu áfengis eftir þessa upptalningu hér að ofan.
Árni er algjörlega á sama máli og Lára og segir fjölda fólks ósátt við þróunina og það fólk er alls ekki tilbúið í að fórna lýðheilsu fjöldans fyrir gróða fárra, „hvorki kampavínsdrengja né annarra og ef ekkert jákvætt fer að gerast í þessu máli og ólögleg netsala og auglýsingarnar stöðvaðar þá er einfaldlega fokið í flest skjól." Vill Árni meina að með þessu sé verið að mylja niður gildandi lög með afskiptaleysi og segir hann einnig að það sé „vægast sagt afar umhugsunarvert þegar framkvæmdavaldið, sem er í þessu tilfelli lögreglan, standi ekki undir undir nafni og bregðist mikilvægum skyldum sínum með algeru fálæti í verki“ og bætir því við að „almenn lýðheilsumarkmið, velferðarsjónarmið, vernd barna og ungmenna, svo ekki sé minnst á lýðheilsumat eru augljósar og algerar forsendur áfengisstefnu. Við getum ekki byggt áfengisstefnu á ítrustu forsendum ítrustu sérhagmuna áfengisiðnaðarins.“
Hann bætir því við að íbúar þessa lands, „við sem þetta land byggjum, verðum að geta treyst því að lögreglan sinni sínu hlutverki. Við almenningur verðum að geta treyst því að lögreglan og ákæruvaldið sýni frumkvæði í máli eins og þessu sem varðar fyrst og fremst velferð almennings. Og það er á hreinu að salan er ólögleg.“
Eitt af hverjum tíu dauðsföllum í Evrópu rakið til áfengisneyslu
Framsóknarmaðurinn Willum Þór Þórsson - núverandi formaður íþrótta- og ólympíusambands Íslands (ÍSÍ), var heilbrigðisráðherra á árunum 2021 til 2024. Hann lét sig eðlilega áfengismál á Íslandi varða, og í bréfi sem hann skrifaði til flokksbróður síns, Sigurðar Inga Jóhannssonar formanns Framsóknarflokksins og þáverandi fjármála- og efnhagsráðherra, árið 2024, lýsir Willum yfir afar miklum áhyggjum sínum vegna stöðu áfengismála á Íslandi.

Willum Þór Þórsson
í bréfi sínu til fjármála- og efnahagsráðherra segir Willum að með „netsölu áfengis sé grafið undan gildandi sölufyrirkomulagi á áfengi og grundvallarmarkmiðum stefnu stjórnvalda í lýðheilsumálum ógnað.“ Vísar Willum meðal annars til markmiðsákvæða áfengislaga og laga um verslun með áfengi og tóbak sem kveða á um að umgjörð smásölu áfengis skuli byggjast á bættri lýðheilsu og samfélagslegri ábyrgð.
Hann nefnir að tilgangur „einkasölufyrirkomulags áfengis á smásölustigi byggir á augljósum lýðheilsu- og samfélagsrökum sem felast fyrst og fremst í því að takmarka aðgengi að áfengi og vinna þannig gegn misnotkun og skaðlegum áhrifum þess.“ Segir einnig að í sáttmála ríkisstjórnarinnar komi fram að það séu „sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar, fjárhagslegir og félagslegir, að aukin áhersla sé lögð á lýðheilsu og forvarnir. “
Willum bendir aukinheldur á í bréfi sínu til flokksbróður síns að í sáttmála ríkisstjórnarinnar „komi fram að það séu sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar, fjárhagslegir og félagslegir, að aukin áhersla sé lögð á lýðheilsu og forvarnir. Stóraukið aðgengi að áfengi með opnun netverslana vinni beinlínis gegn þeirri framtíðarsýn Alþingis.“
Willum bendir einnig á að margar rannsóknir hafi sýnt fram á að aukið „aðgengi að áfengi hafi slæm áhrif á heilsufar fólks og hafi neikvæðar félagslegar afleiðingar í för með sér“ og nefnir eitt sláandi dæmi um að „rekja megi eitt af hverjum tíu dauðsföllum í Evrópu til áfengisneyslu, neysla þess hafi orsakatengsl við yfir 200 sjúkdóma og heilsukvilla og sé auk þess stór áhættuþáttur slysa.“
Þá ljær Willum máls á því í áðurnefndu bréfi sínu til Sigurðar Inga að netverslun með áfengi sé mögulega í andstöðu við lög.
„Einstaklingum hér á landi er heimilt að flytja áfengi til landsins til eigin nota, að því tilskildu að þeir standi sjálfir fyrir innflutningnum, greiði tolla og önnur opinber gjöld og að salan fari fram í öðru landi. Deilt hefur verið um hvort fyrirkomulag netverslana á íslenskum markaði brjóti gegn ákvæðum laga þar sem þær selji áfengi af innlendum lager sem þegar hafi verið flutt til landsins og tollafgreitt. Þá hafi borið á auglýsingum netverslana um heimsendingu áfengis á höfuðborgarsvæðisins innan við 30 mínútum eftir að kaupin fara fram. Ekki hefur verið skorið úr um það fyrir dómstólum hvort hér sé um að ræða einkainnflutning kaupanda á vörunni, eða hvort innflutningurinn stríði gegn lögum.“
Alma tekur við keflinu
Eins og áður sagði var Willum við völd í heilbrigðisráðuneytinu á árunum 2021 til 2024, en eftir að ríkisstjórn VG, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks féll fyrir rúmu ári síðan, tók Samfylkingarkonan Alma D. Möller, fyrrum landlæknir, við stöðu heilbrigðisráðherra.

Alma D. Möller
Hún hefur tjáð sig nokkuð, líkt og Willum, um áfengismál á Íslandi. Í febrúar á þessu ári lýsti Alma yfir afdráttarlausum stuðningi við núverandi fyrirkomulag á smásölu áfengis hér á landi; varaði hún sterklega við því að markaðsöflin tækju smásöluna yfir. Alma vísaði þar meðal annars í nýja skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) þar sem fullyrt er að einkasala ríkisins á áfengi sé mikilvægur og árangursríkur hluti af áfengisstefnu Norðurlandaþjóðanna, en þau lönd, að Danmörku frátalinni, eru með ríkiseinkasölu á áfengi. Sagði Alma að samkvæmt skýrslunni sé „heildarneysla áfengis mun minni hjá þessum þjóðum en í öðrum Evrópulöndum þar sem verslunin er frjáls. Niðurstaða skýrslunnar er sú að afnám einkasölu myndi að öllum líkindum leiða til aukinnar áfengisneyslu, heilsutjóns og félagslegra vandamála.“ Segir Alma ennfremur að „markmið skýrslunnar var að greina hvaða hlutverki einkarekin áfengissala á Norðurlöndunum gegnir í áfengisstefnu ríkjanna og hver áhrifin eru á lýðheilsu.“ Þar er gerður samanburður við aðrar þjóðir Evrópu þar sem áfengissala er frjáls og hvort munur sé á áfengisneyslu og áfengistengdum vandamálum eftir því hvort áfengissala er frjáls eða í höndum ríkisins.
„Áfengisneysla Norðurlandaþjóðanna þar sem áfengissalan er ríkisrekin er að meðaltali mun minni en hjá Evrópuþjóðum þar sem hún er frjáls, eða 7-8 lítrar á hvern íbúa - 15 ára og eldri hjá Norðurlandaþjóðunum á móti 11 lítrum hjá samanburðarþjóðunum. Danmörk er með frjálsa áfengisverslun og er neyslan þar svipuð og hjá samanburðarþjóðunum.“
Segir Alma að skýrsluhöfundar bendi á að ríkisreknu einkasölurnar starfi undir stjórn hins opinbera; séu ekki reknar í hagnaðarskyni. Og ólíkt frjálsum markaði byggist þær ekki á hagnaði, enginn hvati sé til að auka sölu áfengis í gegnum markaðssetningu, afslætti eða útsölur, opnunartími sé takmarkaður og aldursmörk á sölu áfengis ströng. Hún nefnir einnig að „þá sýni rannsóknir að eftirfylgni með aldri kaupenda hjá ríkisreknu einkasölunum sé mun betri en hjá áfengissölum á einkamarkaði. Þannig sé einkasala ríkisins á áfengi mikilvægt tól stjórnvalda til þess að draga úr skaðsemi áfengisneyslu og lykilþáttur í áfengisstefnu Norðurlandaþjóðanna.“ Kemur einnig fram að þetta, ásamt háum áfengisgjöldum, sé jafnframt í samræmi við gagnreyndar ráðleggingar WHO um leiðir til að sporna við áfengisneyslu og skaðanum sem af henni hlýst.
Árni hefur heyrt þetta allt áður, en hann vonast innilega eftir því að eitthvað áþreifanlegt fari að gerast - raunverulegar aðgerðir en ekki bara flottur fagurgali á fögrum frídögum með næmt auga fyrir útliti en ekki innihaldi. Hann nánast endurtekur, og hefur greinilega gert það nokkuð oft áður, orð sín um lögmæti netsölunnar og auglýsinganna: „Þetta er algjörlega borðleggjandi mál að öllu leyti. Það er á hreinu að salan er ólögleg og auglýsingarnar líka. Eins og ég sagði þá er algjörlega ólögleg smásala einkaaðila á áfengi - sem viðkomandi nefna „erlenda netsölu“ - látin algjörlega vera af stjórnvöldum á Íslandi, og það er afar undarlegt - og hér er vægt til orða tekið - að Alþingi skuli ekki enn vera búið að taka á þessu, mjög undarlegt í alla staði.“
Kannabis engin lausn
Lögleiðing á kannabisefnum hefur átt sér stað í nokkrum löndum á undanförnum árum; til dæmis í Þýskalandi, í hluta Bandaríkjanna, Kanada, Suður-Afríku og víðar. Ljóst er að lögleiðingin hefur fært þeim er lögleiddu mikinn pening í formi skattlagningar og talað hefur verið um að slík lögleiðing myndi hafa þau áhrif að hinn svokallaði svarti markaður með sína ólöglegu starfsemi og því ofbeldi sem honum fylgir myndi minnka umtalsvert sem kæmi fram í minna ofbeldi og glæpum tengdum þessum áðurnefnda markaði.

En Árni er ekki á því að lögleiðing kannabisefna hér á landi myndi hafa í för með sér minnkandi áfengisneyslu, eða þá að svarti markaðurinn muni hverfa með lögleiðingu á kannabisefnum:
„Í þeim löndum eða ríkjum þar sem kannabisneysla er heimil hefur raunin í mörgum tilfellum orðið sú að um er að ræða viðbót við þá sölu og neyslu sem þegar var fyrir hendi“ og segir líka tæpitungulaust að „allt tal um að með lögleiðingu kannabisefna hyrfi svarti markaðurinn reynast orðin tóm; aukið framboð - verðstríð sem og grjót hörð samkeppni eykur neyslu sem nú er mun meiri en var.“
Hann færir einnig í tal að „hugbreytandi efni - gamla umræðan frá hippatímabilinu um LSD og skyld efni - er nú sett fram sem einhver allsherjar lausn á hvers kyns vanda, en er ekki raunin nú fremur en áður.“
Árni segir að lokum að „normalisering vímuefna byggir fyrst og fremst á ítrustu viðskiptahagsmunum, eins og einnig á við um áfengið. Þetta á ekkert skylt við velferðar- og lýðheilsumarkmið, sem eru auðvitað mun mikilvægari. Við höfum búið að ágætis fyrirkomulagi hérlendis og í stað þessa að ráðast gegn því eins og sérhagsmunaöflin gera þá þarf að styrkja og efla allt sem lýtur að forvörnum og lýðheilsu. Ríkustu skyldur hvers samfélags lúta að velferð barna- og ungmenna.“


Komment