Í gær var samþykkt að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á Alþingi Ísland undirritaði samninginn 30. mars 2007 og var hann fullgiltur 23. september 2016.
Markmið samningsins er að efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra.
Allir viðstaddir þingmenn greiddu atkvæði með því að lögfesta samninginn nema þingmenn Miðflokksins. Ingibjörg Davíðsdóttir, Karl Gauti Hjaltason, Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir, Sigríður Á. Andersen og Snorri Másson ákváðu þess í stað að sitja hjá og greiddu ekki atkvæði.
Sigríður Andersen var eini þingmaður flokksins sem steig í pontu í gær til að gera grein fyrir atkvæði sínu. Þá mættu Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi formaður Miðflokksins, og Bergþór Ólason ekki í atkvæðagreiðsluna.
Ræða Sigríðar
Virðulegur forseti.
Eins og hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra nefnir þá kveður stjórnarskráin, þessi gamla góða, einmitt á um réttindi allra og skyldur stjórnvalda í því sambandi og líka skyldur einstaklinga. Því miður er það svo að hér hefur verið gefinn ádráttur um það að lögfesting á þessum samningi, sem ekki felur í sér nein efnisréttindi fyrir fatlað fólk, muni hins vegar gera það og menn geti sótt sér einhvern rétt sem þeir hafi ekki einu sinni getað sótt með vísan í stjórnarskrána okkar, þessa gömlu góðu.
Það er því miður ekki þannig. Í viðbótarnefndaráliti hv. velferðarnefndar við 3. umræðu málsins kom einmitt fram meginmisskilningur í málinu þar sem því er fullum fetum haldið fram að það felist í þessu einhver efnisréttur sem sveitarfélög m.a. þurfi að standa skil á. Það er því miður ekki þannig.
Í því ljósi, vegna vanbúnings þessa máls fyrir þinginu, get ég ekki greitt málinu atkvæði. Ég leggst ekki gegn því en því miður, og þykir mér það leitt, (Forseti hringir.) get ég ekki stutt málið eins og það er úr garði gert af hálfu hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra.


Komment