Mikill meirihluti lesenda Mannlífs er sammála þeirri ákvörðun RÚV að taka ekki þátt í Eurovision árið 2026.
Mannlíf lagði könnun fyrir lesendur í gær og eru 71% þeirra sem greiddu atkvæði á því máli að RÚV hafi tekið rétta ákvörðun þegar ákveðið var að Ísland myndi ekki taka þátt í Eurovision árið 2026.
Auk þeirra atkvæða sem greidd voru í könnun Mannlífs voru tæplega 1000 athugasemdir skrifaðar á Facebook-síðu Mannlífs og voru flestir sem skrifuðu athugasemd á því að RÚV hafi tekið rétta ákvörðun.
Ert þú sammála ákvörðun RÚV um að taka ekki þátt í Eurovision?
Yfirlýsing framkvæmdarstjórnar RÚV um málið
Ríkisútvarpið hefur ákveðið að taka ekki þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í Vínarborg í Austurríki á næsta ári. Þátttaka ísraelska ríkissjónvarpsins, KAN, í keppninni hefur að undanförnu valdið óeiningu, bæði á meðal aðildarstöðva Samtaka evrópskra útvarpsstöðva, EBU, og almennings. Þátttaka KAN var tekin til ítarlegrar umræðu á fundum EBU fyrr á þessu ári, fyrst í London í sumar og í Genf í síðustu viku. Á fundinum í Genf samþykkti mikill meirihluti aðildarstöðva EBU að ýmsar breytingar sem gerðar hafa verið á reglum og framkvæmd keppninnar væru fullnægjandi og því kom ekki til atkvæðagreiðslu um þátttöku KAN í keppninni.
Útvarpsstjóri gerði grein fyrir því á fundinum í Genf að þrátt fyrir að breytingarnar kæmu til móts við margar af þeim athugasemdum sem fulltrúar RÚV hefðu gert á ýmsum stigum EBU-samstarfsins síðustu ár væru enn efasemdir að mati RÚV um að þær dygðu til. Ítrekað hefði komið fram að hagsmunaaðilar hér á landi, til dæmis samtök listamanna, og íslenskur almenningur væri andvígur þátttöku í keppninni. Þá hefði stjórn RÚV óskað eftir því við EBU að KAN yrði vikið úr keppninni með hliðsjón af fordæmum. Málið væri flókið úrlausnar og hefði nú þegar skaðað orðspor keppninnar og EBU. Mikilvægt væri að finna lausn fyrir alla hlutaðeigandi.
Ljóst er miðað við opinbera umræðu hér á landi og viðbrögð við ákvörðun EBU sem tekin var í síðustu viku að hvorki mun ríkja gleði né friður um þátttöku RÚV í Eurovision. Það er því niðurstaða RÚV að tilkynna EBU um það í dag að RÚV taki ekki þátt í Eurovision á næsta ári. Söngvakeppnin og Eurovision hafa ávallt haft það markmið að sameina íslensku þjóðina en nú er ljóst að því markmiði verður ekki náð og á þeim dagskrárlegu forsendum er þessi ákvörðun tekin. Ekki liggur fyrir ákvörðun um hvort haldin verður söngvakeppni á vegum RÚV á næsta ári. Verið er að meta fyrirliggjandi kosti í stöðunni og verður ákvörðun um það kynnt þegar hún liggur fyrir.


Komment