
Sóttvarnalæknir fékk tilkynningu frá Landspítala í gær vegna mislinga sem greindust hjá ungu barni sem kom heim erlendis frá mánudaginn 5. janúar síðastliðinn en greint er frá þessu í tilkynningu frá Landlæknisembættinu.
Barnið var á bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins 6. janúar. Haft verður samband við alla sem voru hugsanlega útsettir fyrir smiti á spítalanum að sögn embættisins.
Sérstaklega var haft samband við þau flugfélög sem fluttu barnið þann 5. janúar og farþegar verða upplýstir um smithættu.
Mislingar eru bráðsmitandi skæður veirusjúkdómur sem smitar frá öndunarvegi. Einkenni geta komið fram hjá smituðum 1−3 vikum eftir smit. Þau sem hafa verið bólusett fyrir mislingum eða fengið mislinga áður smitast mjög ólíklega en ef það gerist eru einkenni oftast væg. Óbólusettir eru hins vegar í áhættu fyrir smiti og veikindum.

Komment