
Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á leiðbeinanda leikskólans Múlaborg vegna gruns um kynferðisbrot er nú á lokametrunum og málið verður sent héraðssaksóknara. Lögregla getur ekki staðfest hversu mörgum börnum maðurinn er grunaður um að hafa brotið gegn, þar sem rannsóknin er enn að ljúka.
Þetta staðfestir Kristján Ingi Kristjánsson, lögreglufulltrúi hjá kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Vísi. Leiðbeinandinn, karlmaður á þrítugsaldri, situr nú í gæsluvarðhaldi sem gildir til næsta þriðjudags. Lögregla reiknar með að ákvörðun um ákæru liggi fyrir áður en gæsluvarðhaldsúrskurður rennur út.
„Þetta er bara á lokastigi og er að fara til héraðssaksóknara,“ segir Kristján. Þegar málið kom fyrst upp var grunur um að maðurinn hefði brotið gegn minnst einu barni á leikskólanum, en í byrjun október kom fram að hann væri grunaður um brot gegn fleiri en tíu börnum. Kristján Ingi segir að hann geti á þessu stigi ekki upplýst hvort eitthvað hafi breyst varðandi það. „Það er í sjálfu sér ekkert meira sem ég get gefið upp varðandi málið,“ bætir hann við.
Jafnframt bárust fréttir fyrir tæpum tveimur vikum um að starfsmaður leikskólans Brákarborgar væri grunaður um kynferðisbrot gegn barni. Kristján segir að það mál sé enn til rannsóknar og neitar að tjá sig frekar. „Það mál er bara til rannsóknar. Ég get ekki tjáð mig frekar um það,“ segir hann.
Komment